Öld þjóðernisvakningar
Nítjánda öldin var öld þjóðernisvakningar og á margan hátt framfara á Íslandi. En mótvindurinn var líka mikill og erfiður. Tíðarfar var með eindæmum erfitt á síðari hluta aldarinnar, sem leiddi til þess að fjöldi fólks flutti af landi brott og leitaði sér nýrra tækifæra á framandi slóðum í Vesturheimi. En þeir sem eftir voru létu ekki deigan síga og horfðu fram á veginn. Þann 19. júní 1886 var boðað til fundar á Grund í Eyjafirði þar sem var rætt um hvaða stefnu skyldi taka með verslun og vörupöntun úr héraðinu og mögulega sölu á sauðum úr Öngulsstaða-, Saurbæjar- og Hrafnagilshreppum í Eyjafirði. Fundurinn á Grund var hinn eiginlegi stofnfundur Pöntunarfélags Eyfirðinga, en nafni þess var síðan breytt í Kaupfélag Eyfirðinga árið 1887.
Tilefni fundarins á Grund var að borist höfðu fregnir af áhuga A. Zöllners, kaupmanns í Newcastle á Englandi, á að koma á viðskiptum við eyfirska bændur þannig að hann keypti af þeim sauði, en á móti keyptu Eyfirðingar af honum ýmsar nauðsynjavörur. Þetta gekk eftir haustið 1886 þegar verslunarskipið Berwick frá Newcastle kom inn á Pollinn með tólf tegundir nauðsynjavöru, en flutti í þeirra stað út til Englands 220 sauði á fæti.