1886-1895

Öld þjóðernisvakningar

Nítjánda öldin var öld þjóðernisvakningar og á margan hátt framfara á Íslandi. En mótvindurinn var líka mikill og erfiður. Tíðarfar var með eindæmum erfitt á síðari hluta aldarinnar, sem leiddi til þess að fjöldi fólks flutti af landi brott og leitaði sér nýrra tækifæra á framandi slóðum í Vesturheimi. En þeir sem eftir voru létu ekki deigan síga og horfðu fram á veginn. Þann 19. júní 1886 var boðað til fundar á Grund í Eyjafirði þar sem var rætt um hvaða stefnu skyldi taka með verslun og vörupöntun úr héraðinu og mögulega sölu á sauðum úr Öngulsstaða-, Saurbæjar- og Hrafnagilshreppum í Eyjafirði. Fundurinn á Grund var hinn eiginlegi stofnfundur Pöntunarfélags Eyfirðinga, en nafni þess var síðan breytt í Kaupfélag Eyfirðinga árið 1887.
Tilefni fundarins á Grund var að borist höfðu fregnir af áhuga A. Zöllners, kaupmanns í Newcastle á Englandi, á að koma á viðskiptum við eyfirska bændur þannig að hann keypti af þeim sauði, en á móti keyptu Eyfirðingar af honum ýmsar nauðsynjavörur. Þetta gekk eftir haustið 1886 þegar verslunarskipið Berwick frá Newcastle kom inn á Pollinn með tólf tegundir nauðsynjavöru, en flutti í þeirra stað út til Englands 220 sauði á fæti.

Samkeppni um flutning til Vesturheims

Af blaðaauglýsingum á síðasta ársfjórðungi 19. aldar má dæma að mikil samkeppni var milli aðila um að flytja fólk vestur um haf, en sem kunnugt er fluttu margir af Norðurlandi vestur og leituðu nýrra tækifæra og lífsviðurværis í Kanada og Bandaríkjunum. Þetta tímabil er í Íslandssögunni er oft nefnt „Vesturheimsferðirnar“
Í Akureyrarblaðinu Norðurljósið birtist þann 15. mars 1887 auglýsing frá Jakobi nokkrum Gíslasyni þar sem hann kynnir fyrir fólki kostakjör á flutningum vestur til fyrirheitna landsins. Í auglýsingu Jakobs segir orðrétt:
„Anchor-línan flytur yður með beztu kjörum til allra staða í Ameríku. Hún flytur yður beina leið frá Íslandi til Ameríku ef margir fara í einu fyrir langtum lægra verð, en hingað til hefur verið boðið, annars með strandsiglingaskipunum með hverri ferð er yður bezt líkar, frá hvaða höfn sem næst yður er og það kemur á, og eykur það ekkert kostnaðinn. Túlkur fer með yður ef þér farið 30 í hóp.“

Eyfirðingar fögnuðu þúsund ára byggð í Eyjafirði

Dagana 20.-22. júní 1890 efndu Eyfirðingar til mikillar héraðshátíðar til minningar um landnám Helga magra í Eyjafirði fyrir þúsund árum og er talið að í það heila hafi á bilinu fjögur til fimm þúsund manns sótt hana.
Héraðshátíðin fór fram á Oddeyri og voru þar reist tjöld sem rúmuðu um þúsund manns. Hátíðin hófst með því að hleypt var 21 fallbyssukoti af frönsku herskipi sem lá við bryggju og að því búnu gengu menn fylktu liði að hátíðarpallinum þar sem formaður hátíðarnefndar, séra Matthías Jochumsson, lýsti hátíðina setta og að því búnu var sungið Ó Guð vors lands. Séra Davíð Guðmundsson á Hofi flutti síðan hugvekju. Aðrir sem fluttu tölu við þetta tækifæri voru Júlíus Havsteen, amtmaður, séra Matthías Jochumsson, Jón A. Hjaltalín, skólastjóri, séra Magnús Jónsson í Laufási, Skúli Thoroddsen, sýslumaður, Jónas Bjarnason, búfræðingur og séra Jónas Jónasson á Hrafnagili. Í Gránufélagshúsunum var sýndur sjónleikurinn Helgi magri, sem séra Matthías samdi af þessu tilefni.
Á öðrum degi hátíðarinnar var sýning á ýmsum munum, kappreiðar, glíma, dans og önnur skemmtun. Á þriðja og síðasta degi héraðshátíðar Eyfirðinga var m.a. efnt til kappsiglingar á Pollinum.

Hallgrímur Hallgrímsson

Hallgrímur Hallgrímsson, hreppsstjóri á Rifkelsstöðum í Öngulsstaðahreppi, var ásamt Sveinbirni Þórarinssyni, hreppsstjóra á Stokkahlöðum í Hrafnagilshreppi, og Einari Sigfússyni, bónda á Núpufelli, kjörinn í bráðabirgðastjórn Pöntunarfélags Eyfirðinga á stofnfundi félagsins 19. júní 1886. Í kjölfar þess að nafni Pöntunarfélagsins var breytt í Kaupfélag Eyfirðinga í janúar árið 1887 varð Hallgrímur Hallgrímsson fyrsti framkvæmdastjóri félagsins og því starfi gegndi hann til ársins 1894.
Hallgrímur var mikilvirkur félagsmálamaður. Hann var hreppstjóri Öngulsstaðahrepps í áratugi og auk þess hreppsnefndarmaður árum saman. Hann starfaði ötullega að útrýmingu fjárkláða á Íslandi og ferðist um nálega allt land í því skyni með Myklestad fjárkláðalækni. Árið 1905 var hann sæmdur heiðursmerki dannebrogsmanna og Fálkaorðunni árið 1924.

Friðrik Kristjánsson

Friðrik Kristjánsson tók við framkvæmdastjórn Kaupfélags Eyfirðinga árið 1894 og hafði hana með höndum til ársins 1897. Friðrik fæddist 22. febrúar 1867 og ólst upp á Akureyri þar sem hann hóf ungur verslunarstörf. Hann gerðist kaupmaður og síðar útibússtjóri Íslandsbanka. Síðar dvaldi hann í Ameríku.

„Sýnum nú að vér séum staddir á aldamótum“