Pöntunarfélag Eyfirðinga
Frá 1894 til 1906 var félagið jafnan nefnt Pöntunarfélag Eyfirðinga en ekki Kaupfélag Eyfirðinga, en kaupfélagsnafnið festist síðan við það frá 1906. Árið 1886 hallaði undan fæti í viðskiptum við Zöllner kaupmann í Newcastle, en það ár voru sett lög í Englandi sem bönnuðu innflutning á lifandi kvikfé vegna ótta við að með því bærust þangað sjúkdómar. Innflutningsbannið kom harkalega við Pöntunarfélagið og er ekki ofmælt að það hafi um tíma riðað til falls. En í stað þess að leggja árar í bát hertu menn róðurinn og unnu sig smám saman út úr erfiðleikunum. Til marks um það réðst félagið árið 1898 í byggingu vörugeymsluhúss á Torfunefi og þar var síðar fyrsta verslun Kaupfélags Eyfirðinga. Hinn félagslegi styrkur Kaupfélags Eyfirðinga kom fljótlega í ljós. Fyrstu fimm árin í sögu félagsins voru félagsdeildirnar þrjár, um aldamótin 1900 voru þær orðnar sex en á fyrstu tveimur áratugum tuttugustu aldar fjölgaði þeim upp í fimmtán.