1896-1905

Pöntunarfélag Eyfirðinga

Frá 1894 til 1906 var félagið jafnan nefnt Pöntunarfélag Eyfirðinga en ekki Kaupfélag Eyfirðinga, en kaupfélagsnafnið festist síðan við það frá 1906. Árið 1886 hallaði undan fæti í viðskiptum við Zöllner kaupmann í Newcastle, en það ár voru sett lög í Englandi sem bönnuðu innflutning á lifandi kvikfé vegna ótta við að með því bærust þangað sjúkdómar. Innflutningsbannið kom harkalega við Pöntunarfélagið og er ekki ofmælt að það hafi um tíma riðað til falls. En í stað þess að leggja árar í bát hertu menn róðurinn og unnu sig smám saman út úr erfiðleikunum. Til marks um það réðst félagið árið 1898 í byggingu vörugeymsluhúss á Torfunefi og þar var síðar fyrsta verslun Kaupfélags Eyfirðinga. Hinn félagslegi styrkur Kaupfélags Eyfirðinga kom fljótlega í ljós. Fyrstu fimm árin í sögu félagsins voru félagsdeildirnar þrjár, um aldamótin 1900 voru þær orðnar sex en á fyrstu tveimur áratugum tuttugustu aldar fjölgaði þeim upp í fimmtán.

Aldamótasamkoma á Oddeyri

Sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu stóð fyrir aldamótasamkomu á Oddeyri þann 26. júní 1900. Ræður voru fluttar, efnt til kappreiða, kapphlaupa, glímu og leikfimisýningar. Í aldamótaræðu Kl. Jónssonar, sýslumanns, sem hann flutti af þessu tilefni, leitaðist hann við að sjá fyrir sér aldamótaárið 2000. Meðal annars komst hann svo að orði: “Fólkið utan með firðinum kemur til hátíðarstaðarins með gufubátum, sem að staðaldri ganga um fjörðinn, og telefónþræðir ganga þá út með firðinum öllum beggja megin og þar blasa þá við hátíðargestunum fögur hús niður við sjóinn með blómgörðum fyrir framan. Á Pollinum liggja ótal skip með viðhafnarblæjum og hinu íslenska þjóðarmerki á sigluhúsi, það eru fiskiskip Eyfirðinga. Allir hátíðargestir eru vel búnir úr íslensku klæði, sem unnið hefur verið í hinni miklu klæðaverksmiðju við Glerá.” Sýslumaður taldi að þessi framtíðarsýn gæti ræst, en þá þyrfti fólk að venja sig af kveini og barlómi.“Sýnum nú að vér séum staddir á aldamótum,” sagði sýslumaður, “sofum eigi lengur, látum hina gömlu öld síga til viðar, en látum hina nýju finna oss vakandi og reiðubúna til þess að hefjast handa samróma og samtaka, þá verður lýsing mín á samkomu Eyfirðinga árið 2000 enginn draumur.”

Heimastjórn fagnað með fjársöfnun

Akureyringar fögnuðu heimastjórn eins og aðrir landsmenn þann 1. febrúar 1904. Í Akureyrarblaðinu Íslendingi var reyndar þeirri frómu ósk komið til bæjarbúa frá nokkrum mektarmönnum í bænum, þ.á.m. séra Matthíasi Jochumssyni, Guðmundi Hannessyni og Páli Briem, að í stað þess að blása til veislu væri ástæða til þess að efna til samskota fyrir bágstadda í bænum. Í áskoruninni, sem birtist í Íslendingi, segir m.a: “Oss og sjálfsagt mörgum fleirum þykir það næsta óviðfelldið að boðað sé til hverrar dýrindis veislunnar á fætur annarri, þegar vitanlegt er að margir líða hér neyð, eða að minnsta kosti skortir tilfinnanlega nauðsynlegustu lífsbjörg. Oss kom því til hugar að beina þeirri áskorun til hinna efnameiri bæjarbúa og annarra héraðsbúa, karla sem kvenna, að minnast þessa merkisdags í sögu lands vors með því að skjóta saman fé nokkuru til glaðningar og saðningar nokkurum þeim, sem bágstaddir eru hér í bænum og grendinni.”

Skrifstofur KEA

Fyrsta verslunarhús Kaupfélags Eyfirðinga var byggt við Hafnarstræti 90 árið 1898 og þar höfðu forsvarsmenn félagsins einnig sína aðstöðu. KEA byggði síðan yfir starfsemi sína á horni Kaupvangsstrætis og Hafnarstrætis, Hafnarstræti 91-95, og það hús var tekið í notkun árið 1930. Þangað flutti aðalskrifstofa KEA úr Hafnarstræti 90. Í Hafnarstræti 91-95 höfðu kaupfélagsstjórar aðsetur sitt sem og aðalfulltrúi, fjármáladeild, bókhald, endurskoðun, innkaupadeild. launadeild, fræðsludeild o.s.frv. Þá var söludeild verksmiðjanna (Verksmiðjuafgreiðslan) þar til húsa frá upphafi. Einnig var þar um tíma Skipaafgreiðsla KEA og Lífeyrissjóður KEA. Skrifstofa KEA fluttist í júlí 2006 að Glerárgötu 36.

Friðrik Kristjánsson

Friðrik Kristjánsson tók við framkvæmdastjórn félagsins árið 1894 og hafði hana með höndum til ársins 1897. Friðrik fæddist 22. febrúar 1867 og ólst upp á Akureyri þar sem hann hóf ungur verslunarstörf. Hann gerðist kaupmaður og síðar útibússtjóri Íslandsbanka. Síðar dvaldi hann í Ameríku.

Davíð Ketilsson

Davíð Ketilsson var framkvæmdastjóri Kaupfélags Eyfirðinga frá 1897 til 1902. Davíð fæddist 2. ágúst 1846 að Litla-Eyrarlandi í Öngulsstaðahreppi. Hann fluttist ungur með foreldrum sínum að Miklagarði og bjó þar í ellefu ár, en fluttist síðan að Hrísum og þaðan að Núpufelli þar sem hann bjó í nokkur ár. Þaðan lá leiðin að Grund þar sem Davíð stundaði verslunarstörf hjá Magnúsi Sigurðssyni. Síðast starfaði Davíð hjá sonum sínum við verslunarstörf á Akureyri, en þar andaðist hann 29. janúar 1925.

Hallgrímur Kristinsson

Hallgrímur Kristinsson, fæddur í Öxnafellskoti í Saurbæjarhreppi þann 6. júlí árið 1876, var framkvæmdastjóri Kaupfélags Eyfirðinga frá árinu 1902 til ársins 1918. Óhætt er að fullyrða að á þessum árum hafi Hallgrímur lyft Grettistaki við uppbyggingu félagsins, en þegar hann tók við stjórnartaumunum var félagið nánast komið að fótum fram. Hallgrímur fór utan og kynnti sér starfsemi samvinnufélaga í Danmörku og samkvæmt þeim upplýsingum sem hann aflaði sér lagði hann línur um uppbyggingu Kaupfélags Eyfirðinga á næstu árum. Hallgrímur hafði ráðdeild að leiðarljósi í sínum störfum og fátt var honum meiri þyrnir í augum en skuldasöfnun. Honum er lýst sem hreinskiptum, hagsýnum, vandvirkum og áreiðanlegum hugsjónamanni sem var til forystu fallinn. Hallgrímur lagði línur fyrir þær samþykktabreytingar sem staðfestar voru árið 1906 og fylgdi þeim eftir af krafti og dugnaði næstu árin. Að loknu starfi hjá Kaupfélagi Eyfirðinga tók Hallgrímur að sér framkvæmdastjórn hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga, en þar hafði hann með hléum lagt hönd á plóg nokkur undangengin ár. Hallgrímur Kristinsson lést í Reykjavík 30. janúar 1923, aðeins 47 ára að aldri.