1906-1915

Ný sókn Kaupfélags Eyfirðinga

Ný sókn Kaupfélags Eyfirðinga hófst árið 1906. Að erlendri fyrirmynd var á aðalfundi það ár lagður grunnur að því starfi sem KEA byggði á upp frá því. Samþykkt var að KEA hefði það meðal annars að markmiði að útvega félagsmönnum góðar og ósviknar vörur á hagkvæmu verði, að efla vöruvöndun og koma innlendum vörum í sem hæst verð og stuðla að útbreiðslu og eflingu samvinnufélaga í landinu. Jafnframt var ákveðið að hefja búðarverslun í vörugeymsluhúsinu á Torfunefi og um leið að leggja pöntunarformið niður en taka þess í stað upp sölufélagsform. Mikilvægum áfanga í vexti og viðgangi búskapar í Eyjafirði var náð haustið 1907 þegar slátrun hófst í sláturhúsi í Grófargili sem hafði verið byggt um sumarið. Ári síðar varð Kaupfélag Eyfirðinga deild í Sambandskaupfélagi Íslands, síðar Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Félagsmönnum fjölgaði jafnt og þétt. Árið 1906 voru þeir 177 en 817 árið 1915.

Glímukappinn Jóhannes Jósefsson

Oddeyringurinn Jóhannes Jósefsson vann Íslandsglímuna á Akureyri árið 1907, sem efnt var til í Samkomuhúsinu að viðstöddu fjölmenni. Tuttugu og fjórir glímumenn voru skráðir til leiks, en þetta var annað árið sem keppt var í Íslandsglímunni. Jóhannes, síðar kenndur við Hótel Borg, stóð einn uppi ósigraður og var því prýddur Grettisbeltinu. Jóhannes var einn af frumkvöðlum glímunnar á Íslandi. Árið 1906 hafði hann forgöngu um stofnun Ungmennafélags Akureyrar, sem hafði íþróttir á stefnuskrá sinni og þá fyrst og fremst glímuna, en Jóhannes var ákafur unnandi hennar. Sama ár var stofnað glímufélagið Grettir á Akureyri og það stóð fyrir því að láta gera veglegan verðlaunagrip til heiðurs besta glímumanni landsins, þ.e.a.s. Grettisbeltið. Um sumarið var beltið fullgert og var þá auglýst að það yrði til verðlauna í "Verðlaunaglímu Íslands hinni fyrstu" eins og mótið var nefnt 21. ágúst árið 1906. Jóhannes hreppti ekki Grettsbeltið fyrsta árið, en stóð uppi sem glímukóngur Íslands næstu tvö ár. Árið 1908 fór Jóhannes ásamt sex öðrum og sýndu glímu á Ólympíuleikunum í London. Jafnframt keppti hann á leikunum, fyrstur Íslendinga, í grísk-rómverskum fangbrögðum.

Mikil dýrtíð

Um mitt ár 1915 var í Akureyrarblaðinu Íslendingi kvartað sáran yfir dýrtíð, sem mátti öðru fremur tengja við heimsstyrjöldina fyrri. Í Íslendingi kom fram að dýrtíðin kæmi misjafnlega þungt niður á fólki. Bændur, þ.e. þeir sem framleiddu vörur, slyppu betur en hinn almenni launamaður í þéttbýlinu. Það væri t.d. að verða óskiljanlegt hvernig fjöldinn allur af fjölskyldumönnum á Akureyri færu að því að fleyta fram lífinu styrklaust. Og síðar í greininni segir: “Og hvernig á fjöldi fátækra fjölskyldumanna hjer í bæ að lifa í vetur, þrátt fyrir það þó góð atvinna hafi verið nú um tíma, ef enginn fiskafli verður í haust? Hvar eiga þeir að taka peninga til þess að borga með kol til upphitunar í híbýlum sínum, þegar smálestin kostar frá 50 til 60 krónur, eða til þess að kaupa kjöt, ef tvípundið kostar 1 krónu o.s.frv.”

Sláturhús KEA

Sögu slátrunar hjá KEA má rekja allt aftur til ársins 1907 þegar félagið hóf slátrun í Grófargili. Sláturhús var síðan byggt upp á Odddyrartanga og slátrun flutt þangað árið 1929. Á vegum Norðlenska matborðsins er nú slátrað stórgripum í tæknilega fullkomnu sláturhúsi á Oddeyrartanga, en sauðfjárslátrun fyrir Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur er á Húsavík.

Útibú KEA á Grenivík

Höfðhverfingadeild KEA var stofnuð árið 1911. Árið 1915 reisti félagið þar sláturhús og hóf slátrun, en þeirri starfsemi var hætt árið 1980. Þá var KEA með verslun á Grenivík með dagvörur og ýmsar sérvörur, en að auki veitingasölu og bensín- og olíusölu.

Hallgrímur Kristinsson

Hallgrímur Kristinsson, fæddur í Öxnafellskoti í Saurbæjarhreppi þann 6. júlí árið 1876, var framkvæmdastjóri Kaupfélags Eyfirðinga frá árinu 1902 til ársins 1918. Óhætt er að fullyrða að á þessum árum hafi Hallgrímur lyft Grettistaki við uppbyggingu félagsins, en þegar hann tók við stjórnartaumunum var félagið nánast komið að fótum fram. Hallgrímur fór utan og kynnti sér starfsemi samvinnufélaga í Danmörku og samkvæmt þeim upplýsingum sem hann aflaði sér lagði hann línur um uppbyggingu Kaupfélags Eyfirðinga á næstu árum. Hallgrímur hafði ráðdeild að leiðarljósi í sínum störfum og fátt var honum meiri þyrnir í augum en skuldasöfnun. Honum er lýst sem hreinskiptum, hagsýnum, vandvirkum og áreiðanlegum hugsjónamanni sem var til forystu fallinn. Hallgrímur lagði línur fyrir þær samþykktabreytingar sem staðfestar voru árið 1906 og fylgdi þeim eftir af krafti og dugnaði næstu árin. Að loknu starfi hjá Kaupfélagi Eyfirðinga tók Hallgrímur að sér framkvæmdastjórn hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga, en þar hafði hann með hléum lagt hönd á plóg nokkur undangengin ár. Hallgrímur Kristinsson lést í Reykjavík 30. janúar 1923, aðeins 47 ára að aldri.