Ný sókn Kaupfélags Eyfirðinga
Ný sókn Kaupfélags Eyfirðinga hófst árið 1906. Að erlendri fyrirmynd var á aðalfundi það ár lagður grunnur að því starfi sem KEA byggði á upp frá því. Samþykkt var að KEA hefði það meðal annars að markmiði að útvega félagsmönnum góðar og ósviknar vörur á hagkvæmu verði, að efla vöruvöndun og koma innlendum vörum í sem hæst verð og stuðla að útbreiðslu og eflingu samvinnufélaga í landinu. Jafnframt var ákveðið að hefja búðarverslun í vörugeymsluhúsinu á Torfunefi og um leið að leggja pöntunarformið niður en taka þess í stað upp sölufélagsform. Mikilvægum áfanga í vexti og viðgangi búskapar í Eyjafirði var náð haustið 1907 þegar slátrun hófst í sláturhúsi í Grófargili sem hafði verið byggt um sumarið. Ári síðar varð Kaupfélag Eyfirðinga deild í Sambandskaupfélagi Íslands, síðar Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Félagsmönnum fjölgaði jafnt og þétt. Árið 1906 voru þeir 177 en 817 árið 1915.