1916-1925

Heimsstyrjöldin fyrri

Heimsstyrjöldin fyrri, sem stóð frá 1914 til 1918, snerti Kaupfélag Eyfirðinga eins og aðra starfsemi í landinu. Útflutningsvörur voru á góðu verði og vöruvelta félagsins margfaldaðist því á þessum árum. Hins vegar var vöruskortur fylgifiskur stríðsins og af þeim sökum hægði á framkvæmdum og þar með uppbyggingu félagsins. Eftir miklar hækkanir á útflutningsvörum á stríðsárunum kom höggið að stríðinu loknu. Árið 1920 féll verð á íslenskri framleiðslu, einkum landbúnaðarafurðum, sem nam 30-50 prósentum og við bættist erfitt árferði. Hagur bænda og um leið hagur Kaupfélags Eyfirðinga versnaði því mjög og skuldirnar hrönnuðust upp. Í hönd fóru kyrrstöðuár í sögu félagsins, en sólin tók aftur að rísa á árinu 1923. Á því ári hóf KEA kolaverslun og kornmölun, byggt var fisktökuhús á Grenivík árið 1924 og sama ár reisti félagið íshús vestan sláturhússins í Grófargili. Þá var útibú félagsins á Dalvík eflt.

Samvinnuverslun - kaupmannapottur

Með útgáfu Dags, sem kom fyrst út 12. febrúar 1918, fékk samvinnuhreyfingin góðan bandamann. Í hönd fóru nokkuð harðar deilur milli Akureyrarblaðanna um heppilegasta rekstrarform í atvinnulífinu – þar sem harðast tókust á samvinnufélagsformið og kaupmannaverslunin, sem svo var kölluð. Þann 18. júní 1918 birtist í Degi hugleiðing um þetta og þar er kveðið fast að orði: “Sannleikurinn er, að samvinna í verslun er eitt af stórmálum nútímans, reglulegt þjóðmál. Að blöð landsins hafi ekki rjett og jafnvel skyldu til að ræða það mál, ekki síður en hver önnur, er fjarstæða bygð á skilningsleysi, ef ekki öðru verra. Samvinnublöðin munu hjer eftir sem hingað til halda samvinnustefnunni skýrt fram og ákveðið og ekki hirða um álas þeirra kaupmannaþjóna sem hafa það að augnamiði að vinna til skófna úr kaupmannapottinum.”

Dagblaðaauglýsingar sóttu í sig veðrið

Með aukinni útgáfu blaða á Akureyri nýtti Kaupfélag Eyfirðinga sér í auknum mæli þá leið að auglýsa fjölbreyttar vörur sínar til þess að ná til fólks. Þann 1. október 1919 auglýsir Kaupfélag Eyfirðinga Central Maltextrakt og lageröl, en nokkrum vikum síðar hefur félagið fengið með síðustu skipum rokka, potta, taurúllur, saumavélar, borðlampa o.fl. Árið 1920 auglýsti KEA í Degi fjölbreytt úrval höfuðfata – t.d. floshatta, flókahatta, stráhatta, enskar húfur og kaskeiti. Og með enn harðnandi samkeppni er áberandi að KEA hóf að auglýsa verð á nauðsynjavörum. Þannig auglýsti félagið árið 1925 rúsínur á kr. 1.60 kg, sveskjur á kr. 1.75, kúrennur á kr. 2.20, epli á kr. 3.20 og apríkósur á kr. 4.20 kg.

Byggingavörudeild KEA

Rekstur Byggingavörudeildar KEA hófst árið 1919 og er hún því ein elsta söludeild félagsins. Í upphafi var byggingavörudeildin í Hafnarstræti 82, en 1964 var hún flutt í nýtt hús við Glerárgötu. Þar var deildin næstu áratugina, en sumarið 1986 var keypt framtíðarhúsnæði fyrir starfsemina á Lónsbakka og þar var hún starfrækt allar götur þar til Húsasmiðjan keypti reksturinn. Um nokkurt skeið hafði verið rekin timburvinnsla á vegum Byggingavörudeildar KEA á Óseyri, en timburvinnslan var áður sjálfstæð deild og gekk undir nafninu Kassagerðin vegna þess að aðalverkefni hennar í upphafi var að smíða trékassa utan um framleiðslu Smjörlíkisgerðar og fiskikassa. Starfsemi Kassagerðarinnar, sem var fyrst til húsa í Hafnarstræti 73, var síðan einnig flutt út á Lónsbakka og rekin sem Timburvinnsla KEA. Í fyllingu tímans voru byggingavörudeild og raflagnadeild sameinaðar og síðan sameinaðar Húsasmiðjunni og jafnframt eignaðist KEA hlut í Húsasmiðjunni. Þessi hlutur var síðan seldur að fullu og þar með var settur punktur aftan við sögu byggingavöruverslunar í nafni Kaupfélags Eyfirðinga.

Fóðurvörudeild KEA

Fóðurframleiðsla og –sala var fyrst í Kornvöruhúsinu, sem svo var kallað, þar sem nú er bílastæði bak við elsta samlagshúsið í Grófargili. Þar var kornmylla sett á stofn árið 1922 og fóðurbætisblöndun árið 1934. Um langt árabil var Fóðurvörudeild KEA við Skipagötu og heyrði undir Nýlenduvörudeild, en hún var flutt á Oddeyrartanga árið 1980 og byggt yfir hana þar. Tekin var upp samvinna við Kaupfélag Svalbarðseyrar er félögin keyptu Bústólpa hf. og stofnuðu sameiginlega nýtt fyrirtæki, Fóðurvörudeild KEA og KSÞ. Síðar var sett á stofn á grunni Fóðurvörudeildar KEA, föðurvörufyrirtækið Bústólpi, sem þjónustar nautgripa-, sauðfjár-, hrossa-, svína- og alifuglabændur á Norðurlandi.

Útibú KEA á Dalvík

Stærsta og jafnframt elsta útibú KEA var á Dalvík, sett á stofn á árunum 1919 til 1920. Þar var stærsta verslun félagsins utan Akureyrar, bílaverkstæði, sláturhús og fiskvinnslustöð og á hennar vegum var einnig rekin fiskverkun á Hjalteyri. Táknmynd KEA á Dalvík er verslunarhúsið í hjarta Dalvíkur, sem var reist á sjötta áratugnum og tekið að mestu í notkun árið 1953. Þar voru m.a. matvöru-, vefnaðarvöru-, bygginga- og nýlenduvöruverslun, sem og skrifstofur og vörugeymslur. KEA var stærsti hluthafinn í Söltunarfélagi Dalvíkur, sem gerði út rækjutogarann Dalborgu EA og rak rækjuvinnslu á Dalvík. Einnig átti KEA helming í Útgerðarfélagi Dalvíkinga, sem gerði út togarana Björgúlf EA 312 og Björgvin EA 311. Þá átti KEA helming hlutafjár í Upsaströnd hf., sem gerði út Baldur EA 108. Matvöruverslunin Svarfdælabúð rann inn í Samkaup með þeim breytingum sem urðu á eignarhaldi á Matvörudeild KEA. Þá færðist byggingavörudeild KEA á Dalvík undir Húsasmiðjuna og rekstur Frystihúss KEA á Dalvík og útgerð skipanna Björgúlfs og Björgvins færðist yfir til Samherja hf.

Hallgrímur Kristinsson

Hallgrímur Kristinsson, fæddur í Öxnafellskoti í Saurbæjarhreppi þann 6. júlí árið 1876, var framkvæmdastjóri Kaupfélags Eyfirðinga frá árinu 1902 til ársins 1918. Óhætt er að fullyrða að á þessum árum hafi Hallgrímur lyft Grettistaki við uppbyggingu félagsins, en þegar hann tók við stjórnartaumunum var félagið nánast komið að fótum fram. Hallgrímur fór utan og kynnti sér starfsemi samvinnufélaga í Danmörku og samkvæmt þeim upplýsingum sem hann aflaði sér lagði hann línur um uppbyggingu Kaupfélags Eyfirðinga á næstu árum. Hallgrímur hafði ráðdeild að leiðarljósi í sínum störfum og fátt var honum meiri þyrnir í augum en skuldasöfnun. Honum er lýst sem hreinskiptum, hagsýnum, vandvirkum og áreiðanlegum hugsjónamanni sem var til forystu fallinn. Hallgrímur lagði línur fyrir þær samþykktabreytingar sem staðfestar voru árið 1906 og fylgdi þeim eftir af krafti og dugnaði næstu árin. Að loknu starfi hjá Kaupfélagi Eyfirðinga tók Hallgrímur að sér framkvæmdastjórn hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga, en þar hafði hann með hléum lagt hönd á plóg nokkur undangengin ár. Hallgrímur Kristinsson lést í Reykjavík 30. janúar 1923, aðeins 47 ára að aldri.

Sigurður Kristinsson

Sigurður Kristinsson tók við framkvæmdastjórn Kaupfélags Eyfirðinga af Hallgrími bróður sínum árið 1918 og gegndi því starfi til ársins 1923. Sigurður fæddist í Öxnafellskoti í Saurbæjarhreppi 2. júlí 1880. Sigurður var verslunarmaður hjá Túliníusarverslun á Búðum í Fáskrúðsfirði frá 1902 til 1906 er hann réðist til starfa hjá Kaupfélagi Eyfirðinga. Hann starfaði hjá félaginu til ársins 1923, kaupfélagsstjóri var hann síðustu fimm árin, frá 1. janúar 1918 til 30. júní 1923. Hann tók þá við starfi forstjóra Sambands íslenskra samvinnufélaga eftir skyndilegt fráfall Hallgríms bróður hans. Starfi forstjóra SÍS gegndi hann til ársins 1945. Sigurður lét stjórnmál til sín taka og var m.a. formaður Framsóknarflokksins í tæpt ár, 1933-1934. Atvinnumálaráðherra var hann um nokkurra mánaða skeið árið 1931. Sigurður var kjörinn heiðursfélagi Kaupfélags Eyfirðinga árið 1923 og Sambands íslenskra samvinnufélaga árið 1946. Sigurður Kristinsson lést 14. nóvember árið 1963.

Vilhjálmur Þór

Vilhjálmur Þór Þórarinsson hóf sendilstörf hjá Kaupfélagi Eyfirðinga tólf ára gamall og þannig kynntist hann ungur að árum öllum innviðum félagsins. Vilhjálmur Þór fæddist 1. september 1899 á Æsustöðum í Eyjafirði. Hann fluttist fimm ára gamall með foreldrum sínum til Akureyrar og hóf sem fyrr segir störf hjá KEA aðeins tólf ára gamall og var fastráðinn búðarmaður árið eftir og síðar skrifstofumaður. Á nítjánda ári varð Vilhjálmur fulltrúi kaupfélagsstjóra. Við kaupfélagsstjórastarfinu tók Vilhjálmur Þór síðan árið 1923 þegar fráfarandi framkvæmdastjóri, Sigurður Kristinsson, var kallaður til forstjórastarfs hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Í hönd fóru mikil uppbyggingarár hjá KEA undir forystu Vilhjálms Þórs í verslun, sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði. Í fimmtíu ára sögu KEA, sem Eiríkur G. Brynjólfsson skráði, er Vilhjálmi Þór m.a. lýst á þennan hátt: “Undir stjórn hans hefur félagið náð mestri útbreiðslu og mest verið framkvæmt. Stórhýsi hafa verið reist og fjölmargar nýjar starfsgreinar verið upp teknar. Leikur það ekki á tveim tungum, að hann muni vera með snjöllustu kaupsýslumönnum landsins.”; Auk starfs kaupfélagsstjóra tók hann virkan þátt í bæjarpólitíkinni og var m.a. bæjarfulltrúi á Akureyri á árunum 1934-1939. Vilhjálmur Þór lét af starfi kaupfélagsstjóra KEA í árslok 1939. Áður hafði hann fengið tímabundið leyfi stjórnar KEA til þess að takast á hendur formennsku í framkvæmdastjórn vegna þátttöku Íslendinga í heimssýningunni í New York. En önnur viðamikil verkefni fyrir hið opinbera biðu Vilhjálms og þau voru þess eðlis að hann átti örðugt með að sinna þeim jafnframt því að stýra Kaupfélagi Eyfirðinga. Vilhjálmur starfaði að viðskiptamálum fyrir ríkisstjórnina í Bandaríkjunum og varð síðan formaður samninganefndar Íslands við Bandaríkin árið 1941. Um tíma var Vilhjálmur Þór bankastjóri Landsbankans og síðan utanríkis- og atvinnumálaráðherra í utanþingsstjórn Björns Þórðarsonar. Hann var síðan í níu ár forstjóri SÍS frá ársbyrjun árið 1946. Að farsælum starfsferli loknum hjá Sambandinu tók hann aftur við starfi bankastjóra hjá Landsbankanum í ársbyrjun 1955 og gegndi því í tvö ár þar til hann var skipaður aðalbankastjóri Seðlabankans, en þar starfaði Vilhjálmur til ársins 1964. Vilhjálmur Þór lést þann 12. júlí 1972.