Heimsstyrjöldin fyrri
Heimsstyrjöldin fyrri, sem stóð frá 1914 til 1918, snerti Kaupfélag Eyfirðinga eins og aðra starfsemi í landinu. Útflutningsvörur voru á góðu verði og vöruvelta félagsins margfaldaðist því á þessum árum. Hins vegar var vöruskortur fylgifiskur stríðsins og af þeim sökum hægði á framkvæmdum og þar með uppbyggingu félagsins. Eftir miklar hækkanir á útflutningsvörum á stríðsárunum kom höggið að stríðinu loknu. Árið 1920 féll verð á íslenskri framleiðslu, einkum landbúnaðarafurðum, sem nam 30-50 prósentum og við bættist erfitt árferði. Hagur bænda og um leið hagur Kaupfélags Eyfirðinga versnaði því mjög og skuldirnar hrönnuðust upp. Í hönd fóru kyrrstöðuár í sögu félagsins, en sólin tók aftur að rísa á árinu 1923. Á því ári hóf KEA kolaverslun og kornmölun, byggt var fisktökuhús á Grenivík árið 1924 og sama ár reisti félagið íshús vestan sláturhússins í Grófargili. Þá var útibú félagsins á Dalvík eflt.