Frystihús KEA á Oddeyrartanga
Undir lok þriðja áratugarins voru stoðir frumvinnslugreinanna, landbúnaðar og sjávarútvegs, styrktar til muna með tilkomu frystihúss KEA á Oddeyrartanga og mjólkursamlags, sem tók til starfa í gamla sláturhúsinu í Grófargili árið 1928. Jafnframt færðist starfsemi sláturhússins í nýtt sláturhús, sem var byggt áfast frystihúsinu á Oddeyrartanga. Stofnun mjólkursamlagsins var bylting fyrir eyfirskar byggðir. Það var ekki ónýtt að geta nú fengið gerilsneydda mjólk og kaffi- og þeytirjóma, að ekki sé talað um smjör og skyr. Félagið var í sóknarhug á flestum vígstöðvum. Lengi hafði verið horft til byggingar nýs húss á horni Hafnarstrætis og Kaupvangsstrætis og í byggingu þess var ráðist árið 1929 og húsið fullgert og tekið í notkun árið 1930. Í húsinu voru m.a. verslanir, skrifstofur og funda- og samkomusalur. Allt til ársins 2006 voru skrifstofur félagsins í KEA-húsinu við Hafnarstræti 91. Á þessum tíma var KEA langstærsta verslunarfyrirtæki við Eyjafjörð og rak verslun á Akureyri, Dalvík, Grenivík, í Hrísey og Ólafsfirði. Sláturhús rak félagið á öllum þessum stöðum nema í Hrísey. Á vegum KEA festi ýmiskonar iðnaður og framleiðsla rætur. Markviss uppbygging hélt áfram, þrátt fyrir að áhrifa heimskreppunnar gætti með verðlækkun á innlendum vörum og mikilli skuldasöfnun hjá mörgum félagsmönnum.