1926-1935

Frystihús KEA á Oddeyrartanga

Undir lok þriðja áratugarins voru stoðir frumvinnslugreinanna, landbúnaðar og sjávarútvegs, styrktar til muna með tilkomu frystihúss KEA á Oddeyrartanga og mjólkursamlags, sem tók til starfa í gamla sláturhúsinu í Grófargili árið 1928. Jafnframt færðist starfsemi sláturhússins í nýtt sláturhús, sem var byggt áfast frystihúsinu á Oddeyrartanga. Stofnun mjólkursamlagsins var bylting fyrir eyfirskar byggðir. Það var ekki ónýtt að geta nú fengið gerilsneydda mjólk og kaffi- og þeytirjóma, að ekki sé talað um smjör og skyr. Félagið var í sóknarhug á flestum vígstöðvum. Lengi hafði verið horft til byggingar nýs húss á horni Hafnarstrætis og Kaupvangsstrætis og í byggingu þess var ráðist árið 1929 og húsið fullgert og tekið í notkun árið 1930. Í húsinu voru m.a. verslanir, skrifstofur og funda- og samkomusalur. Allt til ársins 2006 voru skrifstofur félagsins í KEA-húsinu við Hafnarstræti 91. Á þessum tíma var KEA langstærsta verslunarfyrirtæki við Eyjafjörð og rak verslun á Akureyri, Dalvík, Grenivík, í Hrísey og Ólafsfirði. Sláturhús rak félagið á öllum þessum stöðum nema í Hrísey. Á vegum KEA festi ýmiskonar iðnaður og framleiðsla rætur. Markviss uppbygging hélt áfram, þrátt fyrir að áhrifa heimskreppunnar gætti með verðlækkun á innlendum vörum og mikilli skuldasöfnun hjá mörgum félagsmönnum.

Öflugt starfsmannafélag KEA

Þann 22. nóvember 1930 var Starfsmannafélag KEA (SKE) stofnað fyrir forgöngu Jakobs Frímannssonar, sem síðar varð kaupfélagsstjóri KEA. Jakob var formaður félagsins fyrstu níu árin, eða þar til hann tók við kaupfélagsstjórastöðunni. Í lögum félagsins kemur fram að tilgangur þess og markmið hafi verið “að vinna að kynningu og bróðurhug meðal starfsmanna KEA, auka fræðslu þeirra og menntun, gera þá hæfari til starfa og jafnhliða hæfari til að vinna að hugsjónum samvinnustefnunnar.” Frá byrjun var starfsemi SKE mjög fjölbreytt. Félagið stóð fyrir fræðslufundum, framsóknarvist, regnbogavist, kvikmyndasýningum, ýmsum námskeiðum, málfundum, jólatrésskemmtunum, þorrablótum, árshátíðum o.fl. Starfsmannafélagið var að vonum afar öflugt og fjölmennt, enda voru allir fastráðnir starfsmenn KEA félagar í því. Árið 1937 gaf Vilhjálmur Þór, kaupfélagsstjóri KEA, félaginu 2.500 kr. í tilefni af 25 ára starfsamæli sínu hjá KEA og mæltist hann til þess að upphæðin skyldi notuð sem vísir að Lífeyrissjóði KEA. Það varð úr og sama ár var sjóðurinn stofnaður og starfsmenn greiddu til að byrja með 3% af launum á móti jafn háu framlagi KEA. Árið 1945 gaf SKE út eitt eintak af starfsmannablaðinu Frosta, en frá 1954 var árum saman gefið út starfsmannablaðið Krummi. Tveimur árum eftir stofnun Starfsmannafélags KEA var ráðist í byggingu orlofshúss í Vaglaskógi, sem fékk nafnið Bjarkarlundur. Við húsið var síðan byggt árið 1961. Árið 1976 voru tekin í notkun tvö orlofshús SKE í landi Hreðavatns í Borgarfirði. Annað þeirra var fljótlega selt, en jafnframt eignaðist félagið tvö hús til viðbótar í Vaglaskógi. Um tíma átti SKE því þrjú hús í Vaglaskógi, en það elsta, Bjarkarlundur var síðan rifið. Árið 1969 afhenti stjórn KEA Starfsmannafélagi KEA til umráða samkomusal á efstu hæð KEA-hússins við Hafnarstræti. Árið 1985 afhenti KEA félaginu síðan til umráða rúmbetri samkomusal í Verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð. Í kjölfar þeirra breytinga sem urðu á starfsemi KEA upp úr aldamótunum 2000 var Starfsmannafélagi KEA slitið, nánar tiltekið árið 2003. Jafnframt var undirritaður þríhliða samningur milli Kaldbaks, SKE og KEA um að peningagjöf frá SKE skyldi varið til að minnast starfa starfsmanna KEA og Starfsmannafélags KEA. Þessari peningagjöf hefur verið varið til þess að kosta gerð þessa margmiðlunardisks.

Heimsins stærsti maður í Svarfaðardal

Á fjórða áratugnum bárust af því fréttir að í Svarfaðardal væri að vaxa úr grasi piltur sem væri miklu stærri en gengur og gerist um unga menn. Þetta var Jóhann Kristinn Pétursson, sem kenndi sig síðar við sína heimasveit og var jafnan kallaður Jóhann Svarfdælingur. Jóhann átti sökum hæðar sinnar í miklum erfiðleikum með vinnu í æsku og svo fór að hann fór utan til Kaupmannahafnar árið 1935 og starfaði upp frá því meira og minna í fjölleikahúsum í Evrópu og Bandaríkjunum, þar sem hann sýndi fólki hæð sína. Um tíma var Jóhann sagður hæsti maður heims, 2,34 metrar að hæð. Eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar kom Jóhann aftur heim til Íslands og var með sýningar víða um land. Vöktu þær mikla athygli og umtal. Til Bandaríkjanna fluttist Jóhann árið 1948 og bjó lengstaf á Flórída, en starfaði vítt og breitt um Bandaríkin á sumrin. Hann hafði hins vegar alltaf mikla heimþrá og á efri árum flutti hann heim á æskuslóð og bjó síðasta æviárið á Dalbæ – heimili aldraðra á Dalvík. Jóhann lést 26. nóvember árið 1984 og hvílir í Dalvíkurkirkjugarði.

Bifreiðadeild KEA

Rekstur bifreiða á vegum KEA má rekja aftur til 1927, en þá keypti félagið sína fyrstu bifreið. Bifreiðadeild KEA var fyrst til húsa í Skipagötu 18, þar sem bifreiðastöðin Bifröst var áður, en var síðar flutt á Tangann í Wathne-húsið.

Brauðgerð KEA

Rekstur Brauðgerðar KEA hófst árið 1930, þegar KEA tók á leigu brauðgerðarhús Axels Schiöth, Hafnarstræti 23. Fyrstu bakarameistararnir voru danskir, Svendsen og C.O. Nielsen. Árið 1935 var Brauðgerðin flutt á aðra hæð Hafnarstrætis 87 og var jarðhæðinni síðan bætt við árið 1941. Árið 1981 fluttist Brauðgerðin á þriðju hæð Kaupvangsstrætis 12, í gamla mjólkursamlagshúsið í Grófargili, þar sem segja má að ný brauðgerð hafi verið tekin í notkun. Helstu framleiðslutæki Brauðgerðar á fyrstu árunum voru stór hólfaskiptur bakaraofn fyrir venjulegan bakstur og seyðingarofn fyrir rúgbrauð. Í fyrstu voru bakaraofnarnir kolakyntir, en frá 1939 var allt brauð bakað í rafmagnsofnum. Fystu áratugina voru starfræktar brauðbúðir á Akureyri – m.a. Volga við Hafnarstræti þar sem hægt var að fá nýbakað brauð – en þær lögðust af með tilkomu kjörbúða KEA. Auk sölu á Akureyri seldi Bauðgerð KEA matbrauð og sætabrauð til kaupfélagsbúða og annarra verslana víða á Norðurlandi. Þá fór brauðbíll um nágrannasveitir að sumarlagi á sjötta áratugnum. Um áramótin 1998-1999 keypti Brauðgerð Kr. Jónssonar & Co Brauðgerð KEA og í kjölfarið var rekstur hennar lagður niður.

Bögglageymsla KEA

Bögglageymsla KEA var sett á stofn árið 1935 í gamla kjötbúðarhúsinu þar sem síðar voru m.a. geymslur Efnagerðarinnar Flóru. Síðar fluttist Bögglageymslan á fyrstu hæð hins svokallaða Timburhúss við Hafnarstræti, þar sem síðar var Umferðarmiðstöð. Í Bögglageymslunni var afgreiðsla mjólkurbílanna af félagssvæðinu og bækistöð þeirra sem ferðuðust með þeim. Bögglageymslan annaðist einnig afgreiðslu Dalvíkurbílsins meðan KEA hafði rekstur hans með höndum og til skamms tíma hafði áætlunarbíll Kristneshælis þar afgreiðslu. Þá önnuðust starfsmenn Bögglageymslunnar afgreiðslu á bensíni og smurningsolíum, þar til Olíusöludeildin var stofnuð árið 1949, sem og hleðslu á rafgeymum fyrir Bílabúð KEA og einstaklinga sem þurftu á slíkri þjónustu að halda.

Efnaverksmiðjan Sjöfn

Upphaf Efnaverksmiðjunnar Sjafnar má rekja allt aftur til ársins 1932 en þá var hafist handa um sápugerð í skúrbyggingu áfastri við Smjörlíkisgerð KEA í Grófargili. Samband íslenskra samvinnufélaga lagði fram hálfan stofnkostnað á móti KEA og var verksmiðjan sameign þessara fyrirtækja í sömu hlutföllum. Árið 1933 fékk verksmiðjan nýtt húsnæði í Grófargili þar sem hún var til húsa í áratugi. Árið 1951 var húsnæðið stækkað og endurbyggt eftir bruna. Í Sjöfn var fyrst framleidd blautsápa og stangasápa, síðan handsápa, baðsápa, raksápa, tannkrem, sjampó, þvottalögur, þvottaduft og ræstiduft, kerti, skóáburður, skíðaáburður, júgursmyrsl o.fl. Nýtt tímabil í rekstri Sjafnar hófst árið 1958 er hafin var framleiðsla á málningu samkvæmt forskrift og með einkaleyfi frá sænskum framleiðendum. Þekktustu framleiðsluvörurnar voru Polytex plastmálning og Rex olíumálning og lökk. Einnig framleiddi Sjöfn spartl, lím o.fl. Árið 1973 hóf Sjöfn framleiðslu á svampi í dýnur og húsgögn. Árið 1972 var málningarframleiðslan flutt að Glerárgötu 28 og rannsóknarstofa og skrifstofur nokkru síðar. Framkvæmdir við nýtt hús Sjafnar við Austursíðu í útjaðri bæjarins hófust vorið 1982 og fjórum árum síðar var vörulager Sjafnar, sem lengi var í húsi við Hvannavelli, fluttur í nýja húsið ásamt svampgerð, hráefnalager, bleiu- og dömubindagerð og þeirri deild er annast framleiðslu á hreinlætisvörum. Síðar var skrifstofa, rannsóknarstofa og málningarframleiðsla flutt í nýja húsið við Austursíðu og var öll starfsemin komin þangað um 1990. Árið 2001 var Sjöfn gerð að eignarhaldsfélagi og hreinlætisvörudeild fyrirtækisins sameinaðist það ár Sámi ehf. og Mjöll ehf. undir nafni Mjallar og Mjöll sameinaðist síðan Sápugerðinni Frigg undir merkjum Mjallar-Friggjar árið 2003. Málningarvöruframleiðsla Sjafnar sameinaðist málningarverksmiðjunni Hörpu í Reykjavík undir nafninu Harpa-Sjöfn. Í kjölfarið var málningarframleiðslu fljótlega hætt á Akureyri.

Kjötiðnaðarstöð KEA

Árið 1934 hóf KEA rekstur pylsugerðar í tengslum við kjötbúð sína, sem fyrst var í Grófargili en síðan lengi í Hafnarstræti 89 (á jarðhæð Hótels KEA). Í pylsugerðinni voru framleiddar pylsur, bjúgu og kjötfars, kjöt var reykt, matvæli soðin niður o.s.frv. Árið 1949 varð Pylsugerð KEA sérstök starfsdeild og flutti í Kaupvangsstræti 23. Kjötiðnaðarstöð KEA var tekin í notkun árið 1966 í nýbyggðu stórhýsi á Oddeyrartanga í námunda við Sláturhús KEA. Kjötiðnaðarstöðin var strax búin fullkomnum vélbúnaði, fyrst og fremst frá Danmörku og Þýskalandi. Nefna má hraðhakkara, pylsusprautur, hakkavélar, áleggsskurðar- og vakúmpökkunarvél, heitreykingar- og kaldreykingarofna auk ýmissa niðursuðuvéla. Sérstök deild annaðist reykingu á kjöti, en KEA-hangikjötið var brátt afar eftirsótt gæðavera. Árið 1976 var tekin í notkun rannsóknarstofa til gæðaeftirlits og vöruþróunar. Árið 2000 sameinuðust Kjötiðnaðarstöð KEA og Kjötiðja KÞ á Húsavík og litlu síðar bættist við Nýja Bautabúrið á Akureyri. Til varð Norðlenska matborðið ehf. Árið 2001 keypti Norðlenska matborðið þrjár kjötvinnslur Goða hf. Norðlenska rekur sláturhús á Akureyri, Húsavík og Höfn í Hornafirði. Norðlenska er með afar fullkomnar vinnslulínur, annars vegar fyrir vinnslu á kindakjöti á Húsavík og hins vegar á stórgripakjöti á Akureyri.

Matvörudeild

Matvörudeild KEA, sem áður var nefnd Nýlenduvörudeild, rak fjölda kjörbúða á Akureyri og einnig var verslunin á Hjalteyri undir matvörudeildinni. Stærsta matvöruverslunin var Kjörmarkaður KEA við Hrísalund, en einnig rak KEA stórar búðir við Byggðaveg og í miðbæ Akureyrar, svo dæmi séu tekin. Upp úr Matvörudeild KEA varð til fyrirtækið Matbær, sem síðan var sameinaður inn í Samkaup.

Mjólkursamlag KEA

Mjólkursamlag KEA var stofnað 4. september 1927 og tók það til starfa þann 6. mars 1928 í gamla sláturhúsinu neðst í Grófargili. Í mjólkursamlaginu var mjólkin gerilsneydd og framleitt smjör, en með tíð og tíma þróaðist ostagerð, skyrgerð o.fl. Eyjafjörður varð smám saman eitt öflugasta nautgriparæktarhérað landsins. Til marks um það tók Mjólkursamlag KEA á móti einni milljón lítra árið 1929, en árið 1966, á áttatíu ára afmælisári KEA, var innlögð mjólk komin í um 20 milljónir lítra og á hundrað ára afmæli KEA var innvegin mjólk rétt tæplega 21 milljón lítra. Árið 1939 var byggt nýtt hús fyrir Mjólkursamlag KEA ofar í Grófargili og byggt síðan við það áratug síðar. Frá byrjun var mjólkin seld í flöskum eða útmæld í eigin ílát, en árið 1972 var byrjað að pakka henni í pappafernur. Einnig voru tíu lítra mjólkurkassar vel þekktir á barnmörgum heimilum. Í júní árið 1965 hófst gröftur fyrir nýju samlagshúsi á Lundstúni og var það sérstaklega hannað með tilliti til ostagerðar, en stjórnvöld höfðu ákveðið að Mjólkursamlag KEA yrði sérstakt ostagerðarbú, jafnt fyrir heimamarkað og útflutning. Ostagerð var síðan fyrst hafin í nýja húsinu og fyrsta smjörið var þar strokkað þann 29. janúar 1980. Síðan hefur vörutegundum fjölgað jafnt og þétt og má þar nefna nýjar ostategundir, kotasælu, jógúrt, skyrdrykki o.fl. Árið 1973 hófust mjólkurflutningar með tankbílum til Mjólkursamlags KEA og var tankvæðingu á samlagssvæðinu að fullu lokið árið 1977. Árið 1985 hóf AKVA starfsemi, en Mjólkursamlag KEA var meðeigandi þess fyrirtækis. AKVA framleiddi ávaxtasafana Blöndu og Frissa fríska og reyndi fyrir sér með útflutning á vatni. Árið 2000 varð Norðurmjólk til við samruna mjólkursamlaganna á Akureyri og Húsavík og Grana – einkahlutafélags í eigu bænda á samlagssvæði Norðurmjólkur. Tveimur árum síðar var mjólkurvinnsla lögð af á Húsavík og hún fluttist alfarið til Akureyrar. Þar með tók Norðurmjólk á móti allri mjólk úr Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Á árinu 2006 framleiddi meðalbúið á starfssvæði Norðurmjólkur um 150 þúsund lítra af mjólk, sem er um 30 þúsund lítrum meira en meðalbúið á Íslandi. Í ársbyrjun 2007 urðu breytingar á eignarhaldi Norðurmjólkur og er mjókursamlagið nú rekið undir merkjum MS-Akureyri.

Smjörlíkisgerð

Smjörlíkisgerð KEA hóf rekstur í Grófargili árið 1930, en starfsemin var flutt í annað húsnæði í Gilinu árið 1949 og tækjakostur jafnframt aukinn og bættur. Lengi vel framleiddi Smjörlíkisgerðin tvær tegundir smjörlíkis, Flóru og Gula bandið, en auk þess kökufeiti, kókossmjör og hert djúpsteikingarfeiti. Árið 1989 keypti KEA Smjörlíkisgerðina Akra í Hafnarfirði og bættist Akra-smjörlíkið þá við vöruflóru Smjörlíkisgerðar KEA. Árið 1991var Smjörlíkisgerð KEA flutt úr Grófargili upp í Mjólkursamlagið á Lundstúni og felld inn í starfsemi þess. Árið 1999 varð Smjörlíkisgerðin sjálfstæð rekstrareining, en þremur árum síðar var hún sett undir AKVA sf. í eigu KEA o.fl. Árið 2003 keypti Sjöfn AKVA.

Útgerðarfélag KEA hf.

Útgerðarfélag KEA hf. var stofnað 1934 og hóf þegar rekstur á vöruflutningaskipi sem KEA hafði keypt árið áður. Því var gefið nafnið Snæfell. Síðan var keyptur lítill togari sem einnig var notaður til vöruflutninga. Honum var gefið nafnið Hvassafell. Snæfellið varð innlyksa í Noregi á stríðsárunum og selt, en Hvassafell strandaði og eyðilagðist árið 1941. Skipasmíðastöð KEA smíðaði fiskiskipið Snæfell EA 740 fyrir Útgerðarfélag KEA, sem gerði það út. Auk útgerðar skipanna annaðist Útgerðarfélag KEA umsvifamikla vöruflutninga með leiguskipum, sem að jafnaði voru tekin á leigu í Noregi og Svíþjóð. Þá hafði félagið með höndum afgreiðslu ýmissa annarra skipa, sem komu til Akureyrar. Á stríðsárunum sá Útgerðarfélag KEA um sölu á ísuðum fiski af bátum í eyfirskum höfnum til færeyskra skipa, sem fluttu hann til sölu í Bretlandi. Á árunum 1948 og 1949 tók félagið einnig að sér rekstur Fisksölusamlags Eyfirðinga, sem á sínum tíma var stofnað til að koma fiskafla eyfirskra báta á erlenda fiskmarkaði. Þá er þess að geta að um tíma annaðist Útgerðarfélag KEA afgreiðslu flugvélarinnar TF Arnar, sem Flugfélag Íslands keypti og tók í notkun árið 1938.

Útibú KEA í Hrísey

KEA setti á stofn útibú í Hrísey árið 1934, en það má rekja til þess að árið 1930 var á vegum KEA byggt fiskmóttökuhús í Hrísey og sama ár var tekin á leigu verslun og hafin vörusala í smáum stíl. Auk verslunar í Hrísey rak KEA um árabil fiskvinnslustöð í Hrísey og átti 75% hlutafjár í Útgerðarfélagi KEA í Hrísey, sem gerði út Snæfell EA 740.

Útibú KEA í Ólafsfirði

KEA stofnaði fyrst útibú í Ólafsfirði árið 1928, en það var síðan selt Ólafsfirðingum árið 1949 þegar þeir stofnaðu sitt eigið kaupfélag. En árið 1977 var Kaupfélag Ólafsfjarðar síðan sameinað KEA og verslun rekin í Ólafsfirði um árabil í nafni KEA, þar sem voru seldar matvörur, byggingavörur, vefnaðarvörur og búsáhöld.

Véladeild KEA

Véladeild KEA var stofnuð á kreppuárunum eða árið 1931, en í upphafi bar deildin nafnið Bíla- og radíódeildin og hafði aðsetur í Hafnarstræti 90. Véladeild KEA hafði umboð fyrir þær bíla- og vélategundir sem SÍS og dótturfyrirtæki þess, Bílvangur, hafði einkaumboð fyrir hér á landi. Véladeild var lengi til húsa í Glerargötu 36, en frá 1982 var hún á Óseyri, í sama húsi og Gúmmíviðgerð KEA, sem var rekin á ábyrgð Véladeildar.

Vélsmiðjan Oddi hf.

Árið 1927 var Vélsmiðjan Oddi sett á stofn í gömlu Gránufélagshúsunum við Strandgötu. Einkum hafði vélsmiðjan með höndum viðhald og viðgerðir skipa og báta, m.a. í gamla slippnum við Torfunefsbryggju. Árið 1945 keypti KEA fyrirtækið ásamt vélaverkstæðinu Marz hf. og sameinaði fyrirtækin í húsnæði Odda. Í kjölfar bruna árið 1952 var plötusmiðja Odda endurbyggð og renniverkstæði var byggt árið 1958. Þá rak Oddi einnig blikksmiðju og kælivéladeild. Á áttunda áratugnum hófst framleiðsla miðstöðvarofna og bobbinga. Verkefni Vélsmiðjunnar Odda voru ekki síst fyrir Útgerðarfélag Akureyringa og Skipasmíðastöð KEA, en einnig vann fyrirtækið fyrir iðnfyrirtæki í bænum, hitaveitu og rafveitu, frystihús og verslanir. Um áramótin 1992-1993 sameinaðist Vélsmiðjan Oddi Slippstöðinni.

Vilhjálmur Þór

Vilhjálmur Þór Þórarinsson hóf sendilstörf hjá Kaupfélagi Eyfirðinga tólf ára gamall og þannig kynntist hann ungur að árum öllum innviðum félagsins. Vilhjálmur Þór fæddist 1. september 1899 á Æsustöðum í Eyjafirði. Hann fluttist fimm ára gamall með foreldrum sínum til Akureyrar og hóf sem fyrr segir störf hjá KEA aðeins tólf ára gamall og var fastráðinn búðarmaður árið eftir og síðar skrifstofumaður. Á nítjánda ári varð Vilhjálmur fulltrúi kaupfélagsstjóra. Við kaupfélagsstjórastarfinu tók Vilhjálmur Þór síðan árið 1923 þegar fráfarandi framkvæmdastjóri, Sigurður Kristinsson, var kallaður til forstjórastarfs hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Í hönd fóru mikil uppbyggingarár hjá KEA undir forystu Vilhjálms Þórs í verslun, sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði. Í fimmtíu ára sögu KEA, sem Eiríkur G. Brynjólfsson skráði, er Vilhjálmi Þór m.a. lýst á þennan hátt:“Undir stjórn hans hefur félagið náð mestri útbreiðslu og mest verið framkvæmt. Stórhýsi hafa verið reist og fjölmargar nýjar starfsgreinar verið upp teknar. Leikur það ekki á tveim tungum, að hann muni vera með snjöllustu kaupsýslumönnum landsins. Auk starfs kaupfélagsstjóra tók hann virkan þátt í bæjarpólitíkinni og var m.a. bæjarfulltrúi á Akureyri á árunum 1934-1939. Vilhjálmur Þór lét af starfi kaupfélagsstjóra KEA í árslok 1939. Áður hafði hann fengið tímabundið leyfi stjórnar KEA til þess að takast á hendur formennsku í framkvæmdastjórn vegna þátttöku Íslendinga í heimssýningunni í New York. En önnur viðamikil verkefni fyrir hið opinbera biðu Vilhjálms og þau voru þess eðlis að hann átti örðugt með að sinna þeim jafnframt því að stýra Kaupfélagi Eyfirðinga. Vilhjálmur starfaði að viðskiptamálum fyrir ríkisstjórnina í Bandaríkjunum og varð síðan formaður samninganefndar Íslands við Bandaríkin árið 1941. Um tíma var Vilhjálmur Þór bankastjóri Landsbankans og síðan utanríkis- og atvinnumálaráðherra í utanþingsstjórn Björns Þórðarsonar. Hann var síðan í níu ár forstjóri SÍS frá ársbyrjun árið 1946. Að farsælum starfsferli loknum hjá Sambandinu tók hann aftur við starfi bankastjóra hjá Landsbankanum í ársbyrjun 1955 og gegndi því í tvö ár þar til hann var skipaður aðalbankastjóri Seðlabankans, en þar starfaði Vilhjálmur til ársins 1964. Vilhjálmur Þór lést þann 12. júlí 1972.

Gula bandið

Án nokkurs vafa er smjörlíkistegundin “Gula bandið” ein af þekktustu tegundum smjörlíkis á Íslandi á tuttugustu öld. Gula bandið var til í nokkrum mismunandi pakkningum.

Bragakaffi

Bragakaffi kemur fyrst á markaðinn á fjórða áratugnum og voru umbúðirnar margvíslegar, en “gulur Bragi” er klárlega þekktustu umbúðir Braga-kaffisins.