1936-1945

Fimmtíu ára afmæli KEA

Þegar hér var komið sögu hafði Kaupfélag Eyfirðinga fest sig í sessi með starfsemi í öllum byggðum Eyjafjarðar, auk félagsdeilda í uppsveitum Suður-Þingeyjarsýslu og Akrahreppi í Skagafirði. Á fimmtíu ára afmæli KEA árið 1936 voru félagsdeildirnar tuttugu og þrjár og félagsmenn rösklega 2.400, fjórðungur þeirra var á Akureyri. Fastráðnir starfsmenn voru 154, þar af tólf hjá útibúum félagsins. Á þessum árum varð mikil uppbygging á vegum KEA í fiskvinnslu við Eyjafjörð. Hraðfrysting hófst í frystihúsunum á Akureyri, Dalvík, í Ólafsfirði og Hrísey. Þá var stofnað til síldarsöltunarfélagsins Njarðar, sem annaðist síldarsöltun á Akureyri og Siglufirði. Útgerðarfélag KEA gerði út tvö skip, Snæfell og Hvassafell, til millilandssiglinga og félagið lét síðan smíða hið fræga aflaskip Snæfell EA 740, í Skipasmíðastöð KEA, sem hafði verið sett á stofn árið 1940. Ný og fullkomin mjólkurstöð var tekin í notkun í Grófargili árið 1939 með nýjum og fullkomnum tækjabúnaði. Þrátt fyrir sóknarhug og kraft setti síðari heimsstyrjöldin mark sitt á starfsemi KEA. Vöruskorts gætti í verslunum og framleiðsludeildir félagsins áttu í erfiðleikum með að afla sér ýmiskonar hráefnis. Kaupgjald hækkaði og fólk tók að flytja úr sveitum á mölina í því skyni að leita nýrra tækifæra. Á einum áratug hafði félagsmönnum í KEA fjölgað um nálega helming og voru í stríðslok orðnir um fjögur þúsund og fjögur hundruð.

Stríðslokum fagnað

Um allt land var lokum síðari heimsstyrjaldarinnar fagnað, en fréttir bárust af því að morgni 7. maí 1945 að Þjóðverjar hefðu gefist upp. Fánar voru tafarlaust dregnir að hún og á Akureyri var öllum verslunum og skrifstofum lokað um hádegi og fólk safnaðist á Ráðhústorg þar sem það hlustaði á gjallarhorn sem útvarpaði útsendingu Ríkisútvarpsins af ávörpum forseta Íslands og forsætisráðherra. Síðan lék Lúðrasveit Akureyrar og Karlakór Akureyrar og Geysir sungu sameiginlega þjóðsöngva Norðurlanda. Snorri Sigfússon flutti ávarp og mannfjöldinn hyllti friðinn og frelsið með margföldu húrrahrópi. Að ósk ríkisstjórnarinnar var efnt til samskota um allt land til þess að styðja við bakið á stríðshrjáðum frændum okkar í Danmörku og Noregi. Á Akureyri var gengið í hús 23. og 24. maí 1945 og voru bæjarbúar almennt örlátir. Á mörgum vinnustöðum var safnað fé, t.d. söfnuðu starfsmenn KEA innan sinna vébanda og starfsmenn Skinnaverksmiðjunnar Iðunnar gáfu eins dags laun til söfnunarinnar.

Nútíma mjólkurstöð

Það er óhætt að segja að mikil bylting hafi orðið með tilkomu hins nýja Mjólkursamlags KEA í Grófargili árið 1939, en á þáverandi verðlagi kostaði hún á bilinu 350 til 400 þúsund krónur. Í frásögn Dags af nýja samlaginu sagði m.a.: “Byggingin, vélarnar og öll umgengni á þessum stað bera þess vott, að hér er vandað til á allan hátt og ekkert hefir verið sparað að gera þessa stofnun svo úr garði að hún geti um mörg ókomin ár svarað til fyllstu krafa, sem gerðar verða til slíkrar stofnunar. Með stofnun mjólkursamlagsins hefir Kaupfélag Eyfirðinga stigið eitt stærsta sporið til eflingar fjárhagslegri velgengni landbúnaðarins og aukinnar ræktunar í héruðum Eyjafjarðar. Og hvað viðvíkur starfrækslu Mjólkursamlagsins í þágu neytenda á Akureyri, þá hefir hún verið tiltölulega jafn þýðingarmikil fyrir þá, því síðastliðin 11 ár hafa íbúar Akureyrar daglega fengið hina lífsnauðsynlegu mjólk og mjólkurvörur fyrir afar sanngjarnt verð, enda hafa vinsældir þessarar stofnunar aukist meðal almennings með hverju ári. Er ánægjulegt til þess að vita að Kaupfélag Eyfirðinga hafi nú að nýju með byggingu þessa mjólkursamlagshúss stigið glæsilegt og djarft framfaraspor í þágu starfslegrar og heilbrigðislegrar menningar í Eyjafirði og á Akureyri.”

Blómabúð KEA

Starfsemi Blómabúðar KEA hófst 1945. Árið eftir var hún flutt á gólfhæð Hafnarstrætis 89 (seinna Terían að hluta), en var flutt árið 1956 í Hafnarstræti 96 (París). Starfsemi Blómabúðarinnar var lögð niður árið 1966.

Garðræktarfélag Reykhverfinga

Garðræktarfélag Reykhverfinga var stofnað árið 1904 á Reykjum í Reykjahverfi. Haustið 1933 var byrjað að byggja fyrsta gróðurhús félagsins, sem var 50 fermetrar að stærð, og hófst tómataræktun þar árið eftir, en fyrstu þrjátíu og fimm árin var kartöflurækt uppistaðan í framleiðslu félagsins. Upphaflega voru eigendur Garðræktarfélagsins einkum bændur í Reykjahverfi, en árið 1937 varð KEA hluthafi í félaginu og eigandi að rúmlega helmingi hlutafjár. Félagið framleiddi aðallega tómata, en einnig gulrætur, agúrkur, hvítkál og paprikur. Í rúmlega hundrað ára sögu Garðræktarfélagsins hefur félagið verið undir stjórn sömu fjölskyldunnar – fjórir ættliðar hafa stýrt félaginu á rúmlega hundrað árum. KEA seldi fjölskyldu Ólafs Atlasonar hlut sinn í Garðræktarfélaginu skömmu eftir aldamótin 2000.

Gúmmíviðgerð KEA

Árið 1945 kom KEA á fót hjólbarðaverkstæði í húsakynnum vélaverkstæðisins Marz, í bakhúsi Strandgötu 11, en þekking til starfseminnar var sótt vestur um haf til Ameríku. Mikilvægt var að fá slíka þjónustu á félagssvæðið, enda fjölgaði bæði bílum og dráttarvélum mjög á þessum tíma. Síðar fluttist fyrirtækið á Óseyri í sama húsnæði og Véladeild KEA og var rekið á ábyrgð hennar.

Hótel KEA

Hótel KEA að Hafnarstræti 87-89 var tekið í notkun síðla árs 1944, en áður hafði verið rekin veitingastofan Gildaskáli KEA á annarri hæð hússins. Kappkostað var að gera hótelið sem best úr garði og er óhætt að segja að alla tíð hafi það verið eitt af þekktustu kennileitum á Akureyri í hjarta bæjarins, við Kaupvangsstræti, gegnt höfuðstöðvum KEA. Hótelið hefur oft verið stækkað og endurnýjað og leitast þannig við að svara síbreytilegum kröfum gesta. Á jarðhæð var lengi vel veitingastofa sem oftast gekk undir nafninu “Terían” og einnig Súlnaberg. Árið 1997 var rekstur hótelsins leigður og í kjölfarið var það síðan selt til aðila í veitinga- og gistiþjónustu á Akureyri.

Kaffibrennsla Akureyrar hf.

Kaffibrennsla Akureyrar hf. var stofnuð 5. nóvember 1936, en einn af stofnendum hennar, Stefán Árnason, hafði rekið kaffibrennslu frá árinu 1931. KEA og SÍS höfðu á árinu 1932 sett á stofn Kaffibætisverksmiðjuna Freyju og árið 1944 keyptu eigendur Freyju Kaffibrennslu Akureyrar og sameinuðu fyrirtækin. Á þessum árum var allsráðandi framleiðsla á Braga kaffi og Freyju kaffibæti, en árið 1965 var framleiðslu hans hætt. Fyrst var Kaffibrennslan rekin í gamla mjólkursamlagshúsinu í Grófargili, en árið 1957 var starfsemin flutt í nýtt húsnæði að Tryggvabraut 16. Framan af var kaffinu pakkað í brúna bréfpoka, en síðar var farið að pakka Braga kaffinu í hina eftirminnilegu gulu poka. Kaffibrennslan reið síðan á vaðið hér á landi með að pakka kaffi í lofttæmdar umbúðir, en við það jókst geymsluþol kaffisins til muna. Upp úr 1990 endurnýjaði Kaffibrennslan alla framleiðslulínu sína þannig að eftir að kaffibaunirnar eru settar í hrákaffisílóin sér vélbúnaður um að blanda baununum saman, brenna þær, mala og pakka kaffinu í sölupakkningar. Árið 2000 stilltu Kaffibrennsla Akureyrar og O. Johnson & Kaaber í Reykjavík saman strengi sína og sett var á stofn Nýja kaffibrennslan í sama húsi og þar sem Kaffibrennsla Akureyrar var áður til húsa. Fyrirtækið er með þrjú vörumerki í kaffi - Braga, Kaaber og Rúbín. Einnig býður Nýja kaffibrennslan sælkeralínu undir Rúbín-merkinu.

Lífeyrissjóður KEA

Lífeyrissjóður KEA tók til starfa árið 1938, en Vilhjálmur Þór, þáverandi kaupfélagsstjóri, lagði grunninn að stofnun sjóðsins með gjafabréfi sínu dagsettu 1. júní 1937.

Njörður hf.

Njörður hf. var stofnaður árið 1937 og voru aðaleigendur KEA og Útgerðarfélag KEA. Tilgangur félagsins var að reka síldarverkun, aðallega á Siglufirði og sölu á tunnum og salti. Einnig kom í hlut félagsins að annast fiskkaup frá Suðurlandi. Njörður rak síldarsöltunarstöð á Siglufirði til fjölda ára og seldi mikið magn af síld. Í kjölfar þess að síldin færði sig austar og Siglufjörður missti spón úr sínum aski lagðist síldarsöltun á vegum Njarðar niður.

Hins vegar var árið 1956 stofnað síldarsöltunarfélagið Borgir hf. sem KEA og Njörður áttu aðild að auk Kaupfélags Norður-Þingeyinga og nokkurra einstaklinga. Komið var á fót síldarsöltunarstöð á Raufarhöfn og síðar Seyðisfirði. Árið 1975 var Útgerðarfélag KEA sameinað Nirði, sem árið 1983 festi kaup á Ólafi Magnússyni, sem síðar hlaut nafnið Sólfell EA 640. Fram til ársins 1983 var framkvæmdastjórn Njarðar á hendi sömu manna og stýrðu Útgerðarfélagi KEA.

Skipasmíðastöð KEA

Skipasmíðastöð KEA hóf starfsemi í svonefndum Wathne-húsum fremst á Oddeyrartanga árið 1940. Yfirstjórn stöðvarinnar var á höndum Útgerðarfélags KEA. Smíðavinnan fór að mestu fram utandyra. Árið 1945 var byggður skipasmíðaskáli sem rúmaði allt að 135 lesta skip. Á árunum 1957 og 1958 var byggt tveggja hæða verkstæðishús, sem bætti aðstöðuna til muna. Auk nýsmíða annaðist Skipamíðastöð KEA viðhald, málun og viðgerðir skipa og báta. Árið 1960 hafði stöðin smíðað 93 fleytur, þar af 22 dekkbáta, 15 trillubáta, 21 hringnótabát, 7 snurpubáta, 3 listabáta, 10 kappróðrarbáta, 5 lífbáta, 5 léttbáta og 5 vatnspramma. Þegar yfir lauk á áttunda áratugnum hafði Skipasmíðastöð KEA smíðað yfir 100 fleytur, stærst þeirra var Snæfell EA, 165 lesta skip, sem var smíðað árið 1942. Yfirsmiður til að byrja með var Gunnar Jónsson, en sonur hans, Tryggvi Gunnarsson, tók við af honum árið 1952. Þeir feðgar teiknuðu flest þau skip sem Skipasmíðastöð KEA smíðaði.

Stjörnu-Apótek

Stjörnu-Apótek var sett á stofn í Hafnarstræti 89 árið 1936, en þetta var fyrsta apótekið með samvinnurekstri á Norðurlöndum. Árið 1973 fluttist Stjörnu-Apótek í stærra húsnæði í Hafnarstræti 95. KEA starfrækti síðar einnig apótek í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð og árið 1998 keypti félagið Akureyrarapótek, sem Oddur Thorarensen hafði stofnað árið 1819. KEA lagði síðan þessi apótek inn sem stóran eignarhlut í lyfjakeðjuna Lyf og heilsu og á hennar vegum hafa verið rekin apótek við Hafnarstræti, í Hrísalundi og á Glerártorgi.

Söltunarfélag Dalvíkur

Rekstur Söltunarfélags Dalvíkur hófst árið 1944 og var félagið í eigu ýmissa aðila á Dalvík. Við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins árið 1984 eignaðist KEA 66% hlutafjár í Söltunarfélaginu. Framan af verkaði Söltunarfélagið fyrst og fremst saltsíld, en uppistaðan í starfseminni á síðari árum var rækjuvinnsla, en félagið gerði út skipið Dalborgu, þar sem Snorri Snorrason var skipstjóri, en hann var frumkvöðull úthafsrækjuveiða við Ísland. Bolfiskafli Dalborgar var unninn í frystihúsi KEA á Dalvík.

Útibú KEA í Grímsey

Árið 1941 var stofnað verslunarútibú KEA í Grímsey og hafði það með höndum sölu á öllum nauðsynjavörum. Einnig rak KEA fiskverkun í Grímsey.

Vátryggingadeild KEA

átryggingadeild KEA, sem var stofnuð árið 1944, hafði í byrjun umboð fyrir Almennar tryggingar en síðar Samvinnutryggingar. Í tengslum við tryggingastarfsemi félagsins var á árinu 1935 stofnaður Sjóvá-tryggingasjóður KEA, sem skyldi annast sjóvátryggingu á eigin vörum félagsins innan fjarðar. Frá stofnun árið 1944 og allt til ársins 1981 var Vátryggingadeild KEA í Hafnarstræti 91, en það ár var hún flutt í Skipagötu 18. Rekstur Vátryggingadeildar var síðar sameinaður Vátryggingafélagi Íslands.

Vilhjálmur Þór

Vilhjálmur Þór Þórarinsson hóf sendilstörf hjá Kaupfélagi Eyfirðinga tólf ára gamall og þannig kynntist hann ungur að árum öllum innviðum félagsins. Vilhjálmur Þór fæddist 1. september 1899 á Æsustöðum í Eyjafirði. Hann fluttist fimm ára gamall með foreldrum sínum til Akureyrar og hóf sem fyrr segir störf hjá KEA aðeins tólf ára gamall og var fastráðinn búðarmaður árið eftir og síðar skrifstofumaður. Á nítjánda ári varð Vilhjálmur fulltrúi kaupfélagsstjóra. Við kaupfélagsstjórastarfinu tók Vilhjálmur Þór síðan árið 1923 þegar fráfarandi framkvæmdastjóri, Sigurður Kristinsson, var kallaður til forstjórastarfs hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Í hönd fóru mikil uppbyggingarár hjá KEA undir forystu Vilhjálms Þórs í verslun, sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði. Í fimmtíu ára sögu KEA, sem Eiríkur G. Brynjólfsson skráði, er Vilhjálmi Þór m.a. lýst á þennan hátt: “Undir stjórn hans hefur félagið náð mestri útbreiðslu og mest verið framkvæmt. Stórhýsi hafa verið reist og fjölmargar nýjar starfsgreinar verið upp teknar. Leikur það ekki á tveim tungum, að hann muni vera með snjöllustu kaupsýslumönnum landsins.” Auk starfs kaupfélagsstjóra tók hann virkan þátt í bæjarpólitíkinni og var m.a. bæjarfulltrúi á Akureyri á árunum 1934-1939. Vilhjálmur Þór lét af starfi kaupfélagsstjóra KEA í árslok 1939. Áður hafði hann fengið tímabundið leyfi stjórnar KEA til þess að takast á hendur formennsku í framkvæmdastjórn vegna þátttöku Íslendinga í heimssýningunni í New York. En önnur viðamikil verkefni fyrir hið opinbera biðu Vilhjálms og þau voru þess eðlis að hann átti örðugt með að sinna þeim jafnframt því að stýra Kaupfélagi Eyfirðinga. Vilhjálmur starfaði að viðskiptamálum fyrir ríkisstjórnina í Bandaríkjunum og varð síðan formaður samninganefndar Íslands við Bandaríkin árið 1941. Um tíma var Vilhjálmur Þór bankastjóri Landsbankans og síðan utanríkis- og atvinnumálaráðherra í utanþingsstjórn Björns Þórðarsonar. Hann var síðan í níu ár forstjóri SÍS frá ársbyrjun árið 1946. Að farsælum starfsferli loknum hjá Sambandinu tók hann aftur við starfi bankastjóra hjá Landsbankanum í ársbyrjun 1955 og gegndi því í tvö ár þar til hann var skipaður aðalbankastjóri Seðlabankans, en þar starfaði Vilhjálmur til ársins 1964. Vilhjálmur Þór lést þann 12. júlí 1972.

Jakob Frímannsson

Jakob Frímannsson fæddist 7. október 1899 á Akureyri. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri árið 1915 og burtfararprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1918. Hann starfaði hjá Kaupfélagi Eyfirðinga 1915-1916 og síðan aftur frá 1918, en árið 1923 varð hann fulltrúi Vilhjálms Þórs, kaupfélagsstjóra, og staðgengill hans á árunum 1937-1940. Kaupfélagsstjóri varð Jakob í ársbyrjun 1940 og gegndi því starfi fram á mitt ár 1971, eða í röska þrjá áratugi. Auk þess að stýra KEA lagði Jakob hönd á plóg í bæjarmálunum á Akureyri. Hann var bæjarfulltrúi á árunum 1942-1970, forseti bæjarstjórnar var hann 1966-1967. Jakob sat í stjórn Samvinnutrygginga í rösk þrjátíu ár og árum saman sat hann í stjórn SÍS, var þar m.a. stjórnarformaður á árunum 1960-1975. Þá var Jakob m.a. í stjórnum Útgerðarfélags Akureyringa, Flugfélags Akureyrar, Flugfélags Íslands, Flugleiða hf., Olíufélagsins hf. og Laxárvirkjunar. Jakob var útnefndur heiðursborgari Akureyrar árið 1974 og heiðursfélagi Starfsmannafélags KEA árið 1980. Jakob Frímannsson lést 8. ágúst 1995.

Ræstiduftið Ópall

Ræstiduftið Ópall var framleitt af Sápugerðinni Sjöfn, síðar Efnaverksmiðjunni Sjöfn og kom á markað undir lok fjórða áratugarins.

Gráðaostur

Mjólkursamlag KEA hóf fyrst framleiðslu á gráðaosti (Akureyri Blue Cheese) árið 1939 og hefur samlagið síðan framleitt þennan ost. Ekki voru allir jafn hrifnir af þessum byltingarkennda osti og var neyslan ekki mikil til að byrja með. Hún hefur hins vegar aukist jafnt og þétt og nú er svo komið að gráðaosturinn þykir alveg ómissandi á ostaborðið og þá hefur notkun hans í matargerð aukist verulega, t.d. í eftirrétti, súpur, sósur og salöt.