Fimmtíu ára afmæli KEA
Þegar hér var komið sögu hafði Kaupfélag Eyfirðinga fest sig í sessi með starfsemi í öllum byggðum Eyjafjarðar, auk félagsdeilda í uppsveitum Suður-Þingeyjarsýslu og Akrahreppi í Skagafirði. Á fimmtíu ára afmæli KEA árið 1936 voru félagsdeildirnar tuttugu og þrjár og félagsmenn rösklega 2.400, fjórðungur þeirra var á Akureyri. Fastráðnir starfsmenn voru 154, þar af tólf hjá útibúum félagsins. Á þessum árum varð mikil uppbygging á vegum KEA í fiskvinnslu við Eyjafjörð. Hraðfrysting hófst í frystihúsunum á Akureyri, Dalvík, í Ólafsfirði og Hrísey. Þá var stofnað til síldarsöltunarfélagsins Njarðar, sem annaðist síldarsöltun á Akureyri og Siglufirði. Útgerðarfélag KEA gerði út tvö skip, Snæfell og Hvassafell, til millilandssiglinga og félagið lét síðan smíða hið fræga aflaskip Snæfell EA 740, í Skipasmíðastöð KEA, sem hafði verið sett á stofn árið 1940. Ný og fullkomin mjólkurstöð var tekin í notkun í Grófargili árið 1939 með nýjum og fullkomnum tækjabúnaði. Þrátt fyrir sóknarhug og kraft setti síðari heimsstyrjöldin mark sitt á starfsemi KEA. Vöruskorts gætti í verslunum og framleiðsludeildir félagsins áttu í erfiðleikum með að afla sér ýmiskonar hráefnis. Kaupgjald hækkaði og fólk tók að flytja úr sveitum á mölina í því skyni að leita nýrra tækifæra. Á einum áratug hafði félagsmönnum í KEA fjölgað um nálega helming og voru í stríðslok orðnir um fjögur þúsund og fjögur hundruð.