1946-1955

Í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar

Í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar voru mörg Evrópuríki í miklum sárum og bjuggu við vöruskort og mikið atvinnuleysi. Þannig var málum ekki háttað hér á landi. Þvert á móti var atvinnulífið nokkuð blómlegt strax eftir stríð og kjör þjóðarinnar bærilega góð, ekki síst vegna framlaga úr svokallaðri Marshallaðstoð. En skjótt skipast veður í lofti. Aflabrestur á síld orsakaði gjaldeyrisskort, sem aftur leiddi til vöruskorts og –skömmtunar. Þetta ástand dró að nokkru leyti máttinn úr fyrirtækjunum í landinu og þau gerðu ekki betur en að halda í horfinu. Það vann á móti þessu ástandi að stjórnvöld létu smíða 42 svokallaða nýsköpunartogara, sem hleyptu lífi í atvinnulífið víða um land. Þrír nýsköpunartogarar komu til Akureyrar. Eftir mikil framkvæmdaár hægði eilítið á í uppbyggingu og fjárfestingum hjá Kaupfélagi Eyfirðinga á fyrstu árunum eftir stríð. Félagið kom þó sem fyrr að ýmsum framfaramálum. Þannig setti KEA á stofn sérstaka raflagnadeild þegar rafvæðing dreifbýlisins hófst upp úr 1950 og annaðist hún raflagnir í hús á Akureyri og víðar. KEA veitti síðan hagkvæm lán þegar í hönd fór rafvæðing sveitanna við Eyjafjörð og auðveldaði þannig bændum að takast fjárhagslega á við þetta umfangsmikla verkefni.

Willys-jeppinn var þarfasti þjónninn

Íslendingar kynntust fyrst Willys-jeppanum á stríðsárunum, en bandaríska herliðið fluttu þessa dýrindis bíla með sér til landsins. Fljótlega kom í ljós að Willysinn var einmitt bíllinn sem Íslendinga vantaði. Hann reyndist fjalltraustur og honum var hægt að bjóða nánast hvað sem er á láglendi sem í óbyggðum. Til að byrja með var Willysinn eingöngu með blæjum, en augljóst var að slíkur búnaður hentaði ekki við íslenskar aðstæður. Hagleiksmenn hönnuðu því yfirbyggingu á Willysinn og þar með var björninn unninn. Það segir sína sögu um vinsældir þessara merku bíla að árið 1950 voru skráðir 1450 Willysar í landinu, sem var fjórðungur bílaflota landsmanna. Willysinn var ekki síst vinsæll til sveita, enda var hann í senn lipur til daglegra snúninga og nýttist vel við bústörfin.

Gjörbreyttur viðskiptamáti

Þann 14. desember 1955 var opnuð við Ráðhústorg á Akureyri ný kjörbúð KEA, þar sem voru teknir upp gjörbreyttir viðskiptahættir frá því sem áður þekktist. Fram að þeim tíma höfðu menn keypt hlutina yfir búðarborðið, ef svo má segja, en nú gátu viðskiptamenn gengið um alla búð og sett vörurnar í innkaupakörfuna. Þessum breyttu viðskiptaháttum er svo lýst í Félagstíðindum KEA í desember 1955: “Þar sem um algera sjálfsafgreiðslu er að ræða, er búðarborðið horfið, og með því skúffurnar. Vörurnar liggja innpakkaðar í opnum hillum, helst í gegnsæjum umbúðum. Verð og fleiri upplýsingar, svo sem um tegund, magn og gæði, eru skráðar utan á pakkana. Menn ganga frjálst um búðina, skoða og velja, skipta um og breyta eftir vild, ræða við samferðamanninn um vörukaupin eða búðarþjón, sem fúslega lætur í té fyllri upplýsingar um allt, sem við kemur vörunum og versluninni. Við útgöngudyr fer greiðslan fram. Féhirðir verslunarinnar handleikur í skyndi hvern vörupakka, meðan “karlinn í kassanum” reiknar út, hvað öll kaup hvers viðskiptamanns í það og það skiptið verða, gefur út fyrirferðalitla en nákvæma skrá yfir verð varanna, og samanlagt kostnaðarverð þeirra. Gegn þessum miða greiðir kaupandinn andvirðið, þokar sér síðan áfram um þröngan gang fram hjá borði féhirðis, og annar viðskiptavinur kemur í slóð hans og leggur sitt vöruúrval á borðið hjá kassanum.” 

Efnagerðin Flóra

Efnagerðin Flóra varð sérstakt fyrirtæki árið 1950, en áður hafði framleiðsla á ýmsum efnagerðarvörum verið í sambandi við Smjörlíkisgerðina, eða allar götur frá árinu 1935 og þar voru framleiddar ýmsar efnagerðarvörur eins og ostahleypir, sultur, söft, sósulitur, matarlitur, kryddvörur og brjóstsykur. Allar voru þessar vörur seldar undir nafninu Flóra. Á árunum 1957 til 1967 framleiddi Flóra gosdrykki, en KEA hafði keypt Öl- og gosdrykkjagerð Akureyrar. Árið 1990 keypti Sigurður Arnórsson Flóru. Heildsala fyrirtækisins var síðan seld og stofnað fyrirtækið Ásbyrgi hf., en það keypti síðan framleiðslu Flóru árið 1993 og var fyrirtækið þá nefnt Ásbyrgi-Flóra ehf. Fyrirtækið er starfrækt á Akureyri undir nafninu Ásbyrgi-Flóra ehf. vörudreifing og hefur með höndum framleiðslu og pökkun á vörum sem og heildsölu.

Málmhúðun KEA

KEA stofnsetti Málmhúðun KEA árið 1950 á Oddeyrartanga norðan Gránufélagsgötu. Tilurð fyrirtækisins var galvanísering, sem var rekin í sambandi við Efnaverksmiðjuna Sjöfn. Í Málmhúðun KEA var framkvæmd tinhúðun á matarílátum, t.d. mjólkurbrúsum, krómhúðun á bíla, búðarinnréttingar, handrið o.fl, nikkelhúðun undir krómun á kaffisett o.fl., zinkhúðun nagla o.fl. og koparhúðun. Einnig réðst Málmhúðun KEA í stálhúsgagnagerð og smíðaði stóla, þar á meðal í Samkomuhúsið á Akureyri, klæddir Iðunnar-skinni, borð, setbekki o.fl. Þegar best lét á sjötta áratugnum störfuðu sex menn hjá fyrirtækinu, en það var selt til Krómhúsgagna í Reykjavík á sjöunda áratugnum.

Olíusöludeild

Olíusöludeild hóf starfsemi árið 1949 og hafði hún umboð fyrir Olíufélagið hf – ESSO. Fyrir daga hitaveitu notuðu flestir olíu til húshitunar, en salan á henni dróst mjög verulega saman á níunda áratugnum. Hins vegar jókst bensínsala umtalsvert með aukinni bifreiðaeign á félagssvæðinu.

Raflagnadeild

Upphaf Raflagnadeildar KEA má rekja til þess að árið 1951 var ráðinn rafvirkjameistari til KEA til að annast viðhald á raflögnum og nýlögnum í húsakynnum félagsins. Þegar rafvæðingin hófst á félagssvæðinu um miðja síðustu öld komu fram óskir frá félagsmönnum um að KEA greiddi fyrir þeim í því viðamikla verkefni og útvegaði efni og kunnáttumenn til að inna verkið af hendi. Fyrsta sölubúð Raflagnadeildar KEA var opnuð 1952 í Hafnarstræti 87 þar sem Véladeild KEA hafði áður verið til húsa. Flutt var í Glerárgötu 36 árið 1964 og var raflagnadeildin þar með starfsemi sína árum saman. Síðar voru Byggingavörudeild KEA og Raflagnadeild KEA sameinaðar og byggingavörudeildin á Lónsbakka hóf að selja raflagnavörur.

Skipaafgreiðsla KEA

Skrifstofur Skipaafgreiðslu KEA voru á aðalskrifstofu félagsins. Hún hafði einnig aðsetur í húsnæði á Oddeyri þar sem Skipasmíðastöð KEA var áður sem og í vöruskemmu á Togarabryggju á Oddeyri. Skipaafgreiðslan annaðist afgreiðslu á skipum Skipaútgerðar ríkisins, skipum Sambandsins svo og leiguskipum á vegum KEA, SÍS og fleiri aðila. Einnig var Skipaafgreiðslan með afgreiðslu fyrir Hafskip um nokkurra ára skeið, þar til Hafskip hætti starfsemi. Auk afgreiðslu á skipum var Skipaafgreiðsla KEA með afgreiðslu vöruflutningabíla á Norður- og Austurlandi – frá Blönduósi til Egilsstaða.

Útibú KEA á Hauganesi

Að ósk Árskógsstrendinga var verslun KEA á Hauganesi opnuð árið 1954 og annaðist hún sölu á öllum nauðsynjavörum.

Þórshamar hf.

KEA, Samvinnutryggingar og Olíufélagið hf. keyptu árið 1952 meirihluta hlutafjár í Bifreiðaverkstæðinu Þórshamri hf., en fyrirtækið var stofnað árið 1944. Framan af var verkstæðið til húsa á Gleráreyrum, skammt austan við verksmiðjubyggingar Iðnaðardeildar Sambandsins, en árið 1969 var hafist handa við byggingu nýs húss við Tryggvabraut og fluttist verkstæðið þangað árið 1970 og óx og dafnaði þar næstu áratugina.

Þvottahúsið Mjöll

Rekstur Þvottahússins Mjallar var á vegum KEA allt frá árinu 1951 þegar félagið keypti meirihluta í félaginu af Gunnari Jónssyni, sem var meðeigandi í fyrstu. Rekstur þvottahússins hófst í bakhúsi Efnagerðarinnar Sjafnar í Grófargili, en árið 1959 fluttist það í rýmra húsnæði við Skipagötu, þar sem það var rekið til ársins 1984, en það ár fluttist starfsemin í Ketilhúsið í Grófargili.

Jakob Frímannsson

Jakob Frímannsson fæddist 7. október 1899 á Akureyri. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri árið 1915 og burtfararprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1918. Hann starfaði hjá Kaupfélagi Eyfirðinga 1915-1916 og síðan aftur frá 1918, en árið 1923 varð hann fulltrúi Vilhjálms Þórs, kaupfélagsstjóra, og staðgengill hans á árunum 1937-1940. Kaupfélagsstjóri varð Jakob í ársbyrjun 1940 og gegndi því starfi fram á mitt ár 1971, eða í röska þrjá áratugi. Auk þess að stýra KEA lagði Jakob hönd á plóg í bæjarmálunum á Akureyri. Hann var bæjarfulltrúi á árunum 1942-1970, forseti bæjarstjórnar var hann 1966-1967. Jakob sat í stjórn Samvinnutrygginga í rösk þrjátíu ár og árum saman sat hann í stjórn SÍS, var þar m.a. stjórnarformaður á árunum 1960-1975. Þá var Jakob m.a. í stjórnum Útgerðarfélags Akureyringa, Flugfélags Akureyrar, Flugfélags Íslands, Flugleiða hf., Olíufélagsins hf. og Laxárvirkjunar. Jakob var útnefndur heiðursborgari Akureyrar árið 1974 og heiðursfélagi Starfsmannafélags KEA árið 1980. Jakob Frímannsson lést 8. ágúst 1995.

Sjafnarkerti

Eftir stríð setti Sjöfn á markaðinn kerti, sem áttu eftir að verða mjög vinsæl. Þessi kerti voru fyrst og fremst ætluð í sérstakar málmklemmur á jólatré. Sjöfn framleiddi nokkrar fleiri tegundir kerta, t.d. “Kóngaljós”.

Niðursoðnar kjötvörur Pylsugerðarinnar

Árið 1951 setti Pylsugerð KEA á markaðinn nokkrar tegundir niðursoðinna kjötvara í 1 kg dósum. Um var að ræða þrjár tegundir; bæjarabjúgu, kindakjöt og blóðmör. Markaðurinn tók þessum tegundum fagnandi, en einkum slógu bæjarabjúgun í gegn og var um tíma ekki unnt að anna eftirspurn. Síðar komu á markaðinn fleiri tegundir niðursoðinna kjötvara frá Pylusgerðinni, t.d. kjötbollur og steikt kjöt í sósu (gullasch).