Í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar
Í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar voru mörg Evrópuríki í miklum sárum og bjuggu við vöruskort og mikið atvinnuleysi. Þannig var málum ekki háttað hér á landi. Þvert á móti var atvinnulífið nokkuð blómlegt strax eftir stríð og kjör þjóðarinnar bærilega góð, ekki síst vegna framlaga úr svokallaðri Marshallaðstoð. En skjótt skipast veður í lofti. Aflabrestur á síld orsakaði gjaldeyrisskort, sem aftur leiddi til vöruskorts og –skömmtunar. Þetta ástand dró að nokkru leyti máttinn úr fyrirtækjunum í landinu og þau gerðu ekki betur en að halda í horfinu. Það vann á móti þessu ástandi að stjórnvöld létu smíða 42 svokallaða nýsköpunartogara, sem hleyptu lífi í atvinnulífið víða um land. Þrír nýsköpunartogarar komu til Akureyrar. Eftir mikil framkvæmdaár hægði eilítið á í uppbyggingu og fjárfestingum hjá Kaupfélagi Eyfirðinga á fyrstu árunum eftir stríð. Félagið kom þó sem fyrr að ýmsum framfaramálum. Þannig setti KEA á stofn sérstaka raflagnadeild þegar rafvæðing dreifbýlisins hófst upp úr 1950 og annaðist hún raflagnir í hús á Akureyri og víðar. KEA veitti síðan hagkvæm lán þegar í hönd fór rafvæðing sveitanna við Eyjafjörð og auðveldaði þannig bændum að takast fjárhagslega á við þetta umfangsmikla verkefni.