1956-1965

Óróleiki í efnahagsmálum

Síðustu ár sjötta áratugarins og fyrri hluti sjöunda áratugarins einkenndist af miklum óróleika í efnahagsmálum þjóðarinnar. Verðbólga og dýrtíð samfara óróleika á vinnumarkaði hafði slæm áhrif á vöxt og viðgang atvinnulífsins og þar með hag heimilanna. Í skýrslu sinni til aðalfundar KEA árið 1961 sagðist Jakob Frímannsson, þáverandi kaupfélagsstjóri, vænta þess að leiðtogar þjóðarinnar í framleiðslu og fjárhagsmálum mættu bera gæfu til að byggja upp fjárhagskerfi, sem gæti orðið til frambúðar. Sagðist Jakob sannfærður um að samvinnustefnan myndi þar helst verða til bjargar og að með hennar hjálp myndu finnast leiðir til bættra lífskjara og öruggrar framtíðar íslensku þjóðarinnar, eins og hann orðaði það. Það var sem sagt viðvarandi veltufjárskortur í þjóðfélaginu, sem hamlaði getu til mikilla framkvæmda. En hjá því var ekki komist þegar leið á sjötta áratuginn að taka ný og stór skref. KEA hóf því framkvæmdir við nýtt mjólkursamlagshús á Lundstúni og kjötiðnaðarstöð á Oddeyri, hvorutveggja framkvæmdir sem áttu eftir að verða félaginu mikil lyftistöng á næstu áratugum. Árið 1960 voru 422 starfsmenn hjá Kaupfélagi Eyfirðinga og félagsmennirnir voru orðnir um 5.400.

Arðmiðarnir góðu

Margir félagsmenn í KEA minnast arðmiðanna, sem þeir söfnuðu saman yfir árið og fóru síðan með á skrifstofu KEA eða í verslanir KEA í janúar ár hvert og fengu arðgreiðslur. Árið 1957 var hætt að skrifa staðgreiðslunótur í verslunum KEA, en í þeirra stað fengu viðskiptamenn kvittanir, sem peningakassinn í búðinni gaf um leið og stimpluð var inn upphæðin sem viðskiptamaðurinn verslaði fyrir í hvert skipti. Í Félagstíðindum KEA árið 1957 eru félagsmenn hvattir til að halda vel utanum arðmiðana, enda sé í þeim fólginn drjúgur arður. Þar segir m.a.: “Það er mjög nauðsynlegt að hver félagsmaður geri sér það ljóst, að það er hagur að því að geyma arðmiðann og skila honum. Nú liggur tillaga fyrir aðalfundi um það, að greiða 6% í arð fyrir síðastliðið ár. Eftir að þessi breyting er komin til framkvæmda, færð þú ekki, félagsmaður góður, þessi 6% eða hver, sem arðurinn kann að verða hverju sinni, ef þú heldur ekki saman þínum arðmiðum. KEA er að gera ráðstafanir til þess að fá hentug ílát undir arðmiðana, sem hver félagsmaður mun fá, og vonandi tekst að fá þau áður en langt um líður.”

Byltingarkenndur hverfistigi

Þann 8. desember 1964 varð byltingarkennd breyting í húsnæði herra- og vefnaðarvörudeildar KEA við Hafnarstræti á Akureyri. Tekinn var í notkun rafmagnsdrifinn hverfistigi, eða rúllustigi eins og hann var oftast kallaður. Tilkoma hverfistigans var að sjálfsögðu dágóð tíðindi, því þessi þýski stigi, sem var smíðaður hjá Otis Elevator Company, var sá fyrsti utan Reykjavíkur. Það var því margt um manninn í herra- og vefnaðarvörudeildum KEA í desember 1964, enda vildu margir prófa þessa tækninýjung. Ekki síst var yngri kynslóðin þess fús að þeytast upp og niður stigann, milli herra- og vefnaðarvörudeildar.

Grána hf.

Árið 1956 var stofnuð verslunin Grána, sem var til húsa við Skipagötu, og var KEA hluthafi í henni. Hlutverk Gránu var að selja útgerðarvörur, sem áður voru seldar í Járn- og glervörudeild.

Plasteinangrun hf.

Fyrirtækið Plasteinangrun hf. var stofnað í Reykjavík árið 1960, en alla tíð var það rekið á Akureyri og voru KEA og SÍS stærstu hluthafarnir. Árið 1968 fluttist Plasteinangrun í eigið húsnæði að Óseyri 3. Til að byrja með var einangrunarplast í hús (froðuplast) eina framleiðsluvara Plasteinangrunar, en árið 1973 hóf fyrirtækið að framleiða plastpoka undir nafninu AKO-pokinn. Árið 1977 hóf Plasteinangrun tilraunaframleiðslu á sprautusteyptum plastvörum fyrir sjávarútveginn og fjórum árum síðan fetaði fyrirtækið sig inn á framleiðslu fiskikassa fyrir sjávarútveginn. Þar voru einnig framleiddar trollkúlur, flotkúlur, netahringir, plasttunnur o.fl. Upp úr 1980 var umsetningin mest og starfsmenn á bilinu 20 til 25. Árið 1986 keypti Sjálfsbjörg, félag fatlaðra, plastpokagerðina út úr fyrirtækinu og flutti hana í Plastiðjuna Bjarg. Árið eftir keypti Plastás einangrunarhluta Plasteinangrunar og árið 1990 keypti Sæplast sjálft fyrirtækið og flutti þáverandi framleiðslu þess til Dalvíkur.

Jakob Frímannsson

Jakob Frímannsson fæddist 7. október 1899 á Akureyri. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri árið 1915 og burtfararprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1918. Hann starfaði hjá Kaupfélagi Eyfirðinga 1915-1916 og síðan aftur frá 1918, en árið 1923 varð hann fulltrúi Vilhjálms Þórs, kaupfélagsstjóra, og staðgengill hans á árunum 1937-1940. Kaupfélagsstjóri varð Jakob í ársbyrjun 1940 og gegndi því starfi fram á mitt ár 1971, eða í röska þrjá áratugi. Auk þess að stýra KEA lagði Jakob hönd á plóg í bæjarmálunum á Akureyri. Hann var bæjarfulltrúi á árunum 1942-1970, forseti bæjarstjórnar var hann 1966-1967. Jakob sat í stjórn Samvinnutrygginga í rösk þrjátíu ár og árum saman sat hann í stjórn SÍS, var þar m.a. stjórnarformaður á árunum 1960-1975. Þá var Jakob m.a. í stjórnum Útgerðarfélags Akureyringa, Flugfélags Akureyrar, Flugfélags Íslands, Flugleiða hf., Olíufélagsins hf. og Laxárvirkjunar. Jakob var útnefndur heiðursborgari Akureyrar árið 1974 og heiðursfélagi Starfsmannafélags KEA árið 1980. Jakob Frímannsson lést 8. ágúst 1995.

Þvottalögurinn Vex

Árið 1956 setti Sjöfn á markaðinn nýjan þvottalög sem fékk nafnið Vex. Í leiðbeiningum framleiðanda kom fram að til hreingerninga þyrfti aðeins eina teskeið af Vex í fjóra lítra af vatni og efnið skaðaði ekki málningu. Til uppþvotta nægði hins vegar ein skeið af Vex í þrjá lítra af vatni. Til að byrja með fékkst Vex í ¾ lítra flöskum.

Flóru Appelsín

Árið 1957 keypti KEA/Flóra hús og tæki Öl- og gosdrykkjagerðar Akureyrar og flutti starfsemina um næstu áramót í gömlu sláturhúsbygginguna/bögglageymsluna í Grófargili. Framleiðsluvörur Flóru voru margvíslegar, m.a. gosdrykkir og safar. Ein af þessum tegundum var Flóru Appelsín.