Óróleiki í efnahagsmálum
Síðustu ár sjötta áratugarins og fyrri hluti sjöunda áratugarins einkenndist af miklum óróleika í efnahagsmálum þjóðarinnar. Verðbólga og dýrtíð samfara óróleika á vinnumarkaði hafði slæm áhrif á vöxt og viðgang atvinnulífsins og þar með hag heimilanna. Í skýrslu sinni til aðalfundar KEA árið 1961 sagðist Jakob Frímannsson, þáverandi kaupfélagsstjóri, vænta þess að leiðtogar þjóðarinnar í framleiðslu og fjárhagsmálum mættu bera gæfu til að byggja upp fjárhagskerfi, sem gæti orðið til frambúðar. Sagðist Jakob sannfærður um að samvinnustefnan myndi þar helst verða til bjargar og að með hennar hjálp myndu finnast leiðir til bættra lífskjara og öruggrar framtíðar íslensku þjóðarinnar, eins og hann orðaði það. Það var sem sagt viðvarandi veltufjárskortur í þjóðfélaginu, sem hamlaði getu til mikilla framkvæmda. En hjá því var ekki komist þegar leið á sjötta áratuginn að taka ný og stór skref. KEA hóf því framkvæmdir við nýtt mjólkursamlagshús á Lundstúni og kjötiðnaðarstöð á Oddeyri, hvorutveggja framkvæmdir sem áttu eftir að verða félaginu mikil lyftistöng á næstu áratugum. Árið 1960 voru 422 starfsmenn hjá Kaupfélagi Eyfirðinga og félagsmennirnir voru orðnir um 5.400.