Dýrtíðin
Áfram hélt dýrtíðin og KEA sá fram á að enn um hríð myndi þrengja að iðnaðarframleiðslu félagsins. Höft á lánsfjármagni voru farin að sverfa að og tíðar gengisfellingar bættu ekki úr skák. Stjórnarformaður og kaupfélagsstjóri höfðu á orði á aðalfundi félagsins árið 1968 að þar sem ríkisstjórnin hefði samvinnumenn aldrei með í ráðum væri engin önnur úrræði önnur en að taka því sem að höndum bæri. En úr þessu rættist um 1970 og næstu ár voru farsæl í rekstri KEA. Meðal annars voru miklar framkvæmdir við endurbætur á fiskvinnsluhúsum félagsins í Hrísey og á Dalvík, sem miðuðu að aukinni sjálfvirkni og framleiðni. Þessar fjárfestingar skiluðu mjög góðri afkomu fiskvinnslu félagsins á þessum árum. Þrátt fyrir að efnahagsástandið væri miður gott þegar dró að lokum sjöunda áratugarins stóð menningin með blóma í Eyjafirði. Sjallinn var miðpunktur skemmtanalífsins og þar fór Hljómsveit Ingimars Eydal á kostum. Árið 1969 söng hljómsveitin eftirminnilegan texta Kristjáns frá Djúpalæk um “Vor Akureyri” þar sem fram kom að Akureyringar þyrftu lítið sem ekkert að sækja suður því þeir hefðu Lindu, KEA og heilsudrykkinn Thule, Amaro og SÍS.