1966-1975

Dýrtíðin

Áfram hélt dýrtíðin og KEA sá fram á að enn um hríð myndi þrengja að iðnaðarframleiðslu félagsins. Höft á lánsfjármagni voru farin að sverfa að og tíðar gengisfellingar bættu ekki úr skák. Stjórnarformaður og kaupfélagsstjóri höfðu á orði á aðalfundi félagsins árið 1968 að þar sem ríkisstjórnin hefði samvinnumenn aldrei með í ráðum væri engin önnur úrræði önnur en að taka því sem að höndum bæri. En úr þessu rættist um 1970 og næstu ár voru farsæl í rekstri KEA. Meðal annars voru miklar framkvæmdir við endurbætur á fiskvinnsluhúsum félagsins í Hrísey og á Dalvík, sem miðuðu að aukinni sjálfvirkni og framleiðni. Þessar fjárfestingar skiluðu mjög góðri afkomu fiskvinnslu félagsins á þessum árum. Þrátt fyrir að efnahagsástandið væri miður gott þegar dró að lokum sjöunda áratugarins stóð menningin með blóma í Eyjafirði. Sjallinn var miðpunktur skemmtanalífsins og þar fór Hljómsveit Ingimars Eydal á kostum. Árið 1969 söng hljómsveitin eftirminnilegan texta Kristjáns frá Djúpalæk um “Vor Akureyri” þar sem fram kom að Akureyringar þyrftu lítið sem ekkert að sækja suður því þeir hefðu Lindu, KEA og heilsudrykkinn Thule, Amaro og SÍS.

KEA gaf Margréti Danadrottningu “Fjallakyrrð”

Þann 6. júlí 1973 sóttu Margrét Þórhildur, Danadrottning, og Hinrik prins, eiginmaður hennar, ásamt fylgdarliði, Norðlendinga heim. Flugvél þeirra lenti á Aðaldalsflugvelli og síðan var hinum tignu gestum sýnd fegurð Suður-Þingeyjarsýslu. Síðdegis var haldið til Akureyrar og var m.a. ekið eftir hinni nýju og glæsilegu götu, sem síðar fékk nafnið Drottningarbraut. Leiðin lá upp í Lystigarð þar sem mikill fjöldi Akureyringa tók á móti drottningunni og prinsinum, íslensku forsetahjónunum, dr. Kristjáni Eldjárn og frú Halldóru, og öðrum tignum gestum. Bjarni Einarsson, bæjarstjóri, og Margrét Þórhildur fluttu ávörp. Jón Hlöðver Áskelsson stjórnaði söng og lúðrablæstri, m.a var konungssöngur Dana fluttur og “Ó Guð vors lands”. Um kvöldið bauð bæjarstjórn Akureyrar til veislu á Hótel KEA. Margrét Þórhildur, Hinrik prins og föruneyti höfðu aðsetur á Hótel KEA meðan á dvöl þeirra stóð. Til minningar um dvölina á hótelinu gaf KEA drottningu málverk Kára Eiríkssonar, listmálara, “Fjallakyrrð”. Danadrottning sendi KEA síðar þakkarbréf fyrir málverkið góða og lét þess getið að hún hefði komið því fyrir í höllu sinni.

“Kaupfélagshretið”

Oft hefur það hist svo á að veður hafa verið heldur válynd í kringum aðalfundi KEA að vori og því hefur oft verið haldið fram að slík fundarhöld væru himnaskaparanum ekki þóknanleg. Þessi “þjóðtrú” hefur reyndar margsinnis verið afsönnuð þegar sól hefur skinið í heiði og ekki bærst hár á höfði, en engu að síður hefur þjóðtrúin um “kaupfélagshretið” eða “kaupfélagsáhlaupið” lifað góðu lífi. Aðalfundur KEA, sem er æðsta úrskurðarvald í málefnum félagsins, er sem fyrr segir haldinn að vori, en í aðdraganda hans eru haldnir fundir í félagsdeildum þar sem kjörnir eru fulltrúar viðkomandi deildar til setu á aðalfundi. Hverri félagsdeild er kjörin þriggja manna deildarstjórn. Þá hefur frá 1930 verið félagsráð/fulltrúaráð í KEA, skipað deildarstjórum og öðrum fulltrúum deilda, sem hefur verið einskonar tengiliður milli stjórnar KEA og félagsdeilda. Stjórn kallar fulltrúaráð til funda með sér þegar þurfa þykir.

Útgerðarfélag KEA í Hrísey

Útgerðarfélag KEA í Hrísey var stofnað um eign og rekstur skuttogarans Snæfells EA 740, sem var keyptur frá Noregi og kom til landsins árið 1975. KEA átti 75% hlutafjár á móti Hríseyjarhreppi og einstaklingum.

Útibú KEA á Siglufirði

Árið 1971 fékk KEA beiðni um að koma á fót útibúi KEA á Siglufirði, en þá hafði Kaupfélag Siglfirðinga hætt rekstri. Á aðalfundi árið 1972 var samþykkt að opna útibú á Siglufirði og hafði það með höndum verslunarrekstur í nokkur ár. Með uppstokkun á verslunarrekstri KEA færðist verslunin á Siglufirði undir Samkaup.

Vöruhús KEA

Sumarið 1970 hófst bygging verslunarhúss við Hafnarstræti 95 og fyrsta deildin, Skódeild, fluttist þar inn 26. maí 1972. Í Vöruhúsi KEA voru vefnaðarvörudeild, herradeild, járn- og glervörudeild, hljómdeild, skódeild og leik- og ritfangadeild. Í kjallara Kjörmarkaðar KEA við Hrísalund var einnig deild á vegum Vöruhúss KEA. Til ársins 1986 var starfrækt teppadeild í Vöruhúsinu, en hún var þá flutt í húsnæði Byggingavörudeildar KEA á Lónsbakka.

Jakob Frímannsson

Jakob Frímannsson fæddist 7. október 1899 á Akureyri. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri árið 1915 og burtfararprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1918. Hann starfaði hjá Kaupfélagi Eyfirðinga 1915-1916 og síðan aftur frá 1918, en árið 1923 varð hann fulltrúi Vilhjálms Þórs, kaupfélagsstjóra, og staðgengill hans á árunum 1937-1940. Kaupfélagsstjóri varð Jakob í ársbyrjun 1940 og gegndi því starfi fram á mitt ár 1971, eða í röska þrjá áratugi. Auk þess að stýra KEA lagði Jakob hönd á plóg í bæjarmálunum á Akureyri. Hann var bæjarfulltrúi á árunum 1942-1970, forseti bæjarstjórnar var hann 1966-1967. Jakob sat í stjórn Samvinnutrygginga í rösk þrjátíu ár og árum saman sat hann í stjórn SÍS, var þar m.a. stjórnarformaður á árunum 1960-1975. Þá var Jakob m.a. í stjórnum Útgerðarfélags Akureyringa, Flugfélags Akureyrar, Flugfélags Íslands, Flugleiða hf., Olíufélagsins hf. og Laxárvirkjunar. Jakob var útnefndur heiðursborgari Akureyrar árið 1974 og heiðursfélagi Starfsmannafélags KEA árið 1980. Jakob Frímannsson lést 8. ágúst 1995.

Valur Arnþórsson

Þórarinn Valur Arnþórsson fæddist 1. mars 1935 á Eskifirði. Hann tók próf frá Samvinnuskólanum árið 1953 og var í trygginga- og viðskiptanámi í London um eins árs skeið og nam einnig um tíma við sænska samvinnuskólann í Saltsjöbaden. Valur starfaði um nokkurra ára skeið hjá Samvinnutryggingum, m.a. deildarstjóri endurtrygginga- og áhættudeilda félagsins. Fulltrúi kaupfélagsstjóra KEA var Valur á árunum 1965 til 1970 þegar hann tók að sér starf aðstoðarkaupfélagsstjóra í eitt ár. Kaupfélagsstjóri KEA varð Valur vorið 1971. Valur tók virkan þátt í bæjarmálum á Akureyri og sat í bæjarstjórn frá 1970. Forseti bæjarstjórnar Akureyrar var hann á árunum 1974 til 1978. Valur sat í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja og stofnana. Hann var kjörinn í stjórn Sambands íslenskra samvinnufélaga árið 1975 og formaður hennar frá 1978, þar til hann tók við starfi bankastjóra Landsbankans 1989. Af öðrum stjórnum sem Valur sat í má nefna stjórn Laxárvirkjunar, Landsvirkjunar, Orkuráðs, Samvinnutrygginga, Olíufélagsins, Vinnumálasambands samvinnufélaganna, Samvinnuferða, Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar, Kaffibrennslu Akureyrar, Útgerðarfélags KEA, Útgerðarfélags Dalvíkinga og Plasteinangrunar hf. Valur lét af starfi kaupfélagsstjóra KEA 31. janúar 1989 eftir hátt í aldarfjórðungs starf hjá félaginu er hann var ráðinn bankastjóri Landsbanka Íslands. Þann 13. október 1990 lést Valur Arnþórsson langt um aldur fram í flugslysi í Skerjafirði.

Sparkling Cola

Flóra setti á markaðinn ýmsar gerðir gosdrykkja. Þessi tegund, Sparkling Cola, var ein þeirra. Þessi tegund mun hafa verið á markaðnum á árunum 1965-1968.

Polytex plastmálning

Ekki er ofmælt að Polytex hafi verið þekktasta vörumerki Efnaverksmiðjunnar Sjafnar í málningu. Í fyrstu framleiddi Sjöfn þessa málningu með einkaleyfi frá sænska fyrirtækinu A B Henning Persson. Á dósunum stóð m.a: Þornar fljótt, þekur vel og er létt í meðferð. Allt var þetta auðvitað satt og rétt. Um það vitnuðu vinsældir þessarar málningar.