KEA fjórða stærsta fyrirtæki landsins
Árið 1978 var KEA fjórða stærsta fyrirtæki landsins samkvæmt úttekt tímaritsins Frjálsrar verslunar, þar sem ársstörf félagsins voru skráð rösklega eitt þúsund. Félagsmenn voru þá um sjö þúsund. Félagið var enn í vexti og staða þess var gríðarlega sterk á félagssvæðinu. Árið 1976 var stofnuð ný félagsdeild KEA á Siglufirði, en fjórum árum áður hafði félagið tekið við rekstri verslunar sem Kaupfélag Siglufjarðar hafði haft með höndum. KEA yfirtók rekstur Kaupfélags Ólafsfjarðar í ársbyrjun 1977, en félagið stofnaði útibú í Ólafsfirði árið 1928, sem síðan var selt Ólafsfirðingum, er þeir stofnuðu Kaupfélags Ólafsfjarðar. Þá keypti KEA eignir Kaupfélags verkamanna á Akureyri árið 1982, en forsvarsmenn þess höfðu óskað eftir viðræðum við stjórn KEA um sameiningu félaganna. Í kjölfarið hætti Kaupfélag verkamanna verslunarrekstri. Það var mikið átak fyrir KEA að byggja hina nýju mjólkurstöð við Súluveg, enda húsið stórt og búið fullkomnasta tækjabúnaði sem völ var á. Ostagerð hófst þar í desember 1979, en önnur starfsemi samlagsins var flutt úr Grófargili á árinu 1980 og nýja samlagshúsið formlega vígt á afmælisdegi KEA, 19. júní 1980. Nýtt samlagshús skilaði sér fljótlega í hagkvæmari rekstri. Þannig var unnt að hætta vinnslu mjólkur á sunnudögum, sem hafði verið óhjákvæmileg um áratuga skeið. Tankvæðingu hjá mjólkurframleiðendum á samlagssvæðinu var lokið árið 1976, síðustu mjólkurbrúsarnir voru tæmdir í samlaginu þann 31. ágúst það ár, en þá hafði mjólk verið flutt frá bændum í brúsum í 48 ár.