1976-1985

KEA fjórða stærsta fyrirtæki landsins

Árið 1978 var KEA fjórða stærsta fyrirtæki landsins samkvæmt úttekt tímaritsins Frjálsrar verslunar, þar sem ársstörf félagsins voru skráð rösklega eitt þúsund. Félagsmenn voru þá um sjö þúsund. Félagið var enn í vexti og staða þess var gríðarlega sterk á félagssvæðinu. Árið 1976 var stofnuð ný félagsdeild KEA á Siglufirði, en fjórum árum áður hafði félagið tekið við rekstri verslunar sem Kaupfélag Siglufjarðar hafði haft með höndum. KEA yfirtók rekstur Kaupfélags Ólafsfjarðar í ársbyrjun 1977, en félagið stofnaði útibú í Ólafsfirði árið 1928, sem síðan var selt Ólafsfirðingum, er þeir stofnuðu Kaupfélags Ólafsfjarðar. Þá keypti KEA eignir Kaupfélags verkamanna á Akureyri árið 1982, en forsvarsmenn þess höfðu óskað eftir viðræðum við stjórn KEA um sameiningu félaganna. Í kjölfarið hætti Kaupfélag verkamanna verslunarrekstri. Það var mikið átak fyrir KEA að byggja hina nýju mjólkurstöð við Súluveg, enda húsið stórt og búið fullkomnasta tækjabúnaði sem völ var á. Ostagerð hófst þar í desember 1979, en önnur starfsemi samlagsins var flutt úr Grófargili á árinu 1980 og nýja samlagshúsið formlega vígt á afmælisdegi KEA, 19. júní 1980. Nýtt samlagshús skilaði sér fljótlega í hagkvæmari rekstri. Þannig var unnt að hætta vinnslu mjólkur á sunnudögum, sem hafði verið óhjákvæmileg um áratuga skeið. Tankvæðingu hjá mjólkurframleiðendum á samlagssvæðinu var lokið árið 1976, síðustu mjólkurbrúsarnir voru tæmdir í samlaginu þann 31. ágúst það ár, en þá hafði mjólk verið flutt frá bændum í brúsum í 48 ár.

Litasjónvarpsvæðingin

Þó öllum þyki meira en sjálfsagt í dag að horfa á heimsviðburði í beinni útsendingu í sjónvarpi, þá er ekki langt síðan að slíkar útsendingar voru með öllu óþekktar. Og það er heldur ekki langt síðan litasjónvarp var gríðarleg bylting í fjarskiptamálum landsmanna. Frá upphafi sjónvarps á Íslandi á sjöunda áratugnum og fram á þann áttunda horfðu landmenn á sjónvarpið í svart-hvítu, en litasjónvörp tóku að ryðja sér til rúms á áttunda áratugnum. Í KEA-fregnum árið 1977 er haft eftir Birni Baldurssyni, vöruhússtjóra, að sala á litasjónvörpum hafi aukist verulega allt frá því að sjónvarpið hóf að senda út hluta sjónvarpsefnisins í lit. Á þessum tíma bauð Hljómdeild KEA fyrst og fremst upp á þrjár tegundir litasjónvarpa, Philips, Radionette og Toshiba. Til dæmis fékkst 20 tommu Toshiba litasjónvarp á kr. 217.700 í Hljómdeild KEA.

100 ára afmæli SÍS

Þann 20. febrúar 1982 voru 100 ár liðin frá stofnun fyrsta kaupfélags landsins, Kaupfélags Þingeyinga, sem markaði upphaf samvinnhreyfingarinnar á Íslandi. Þessara tímamóta var minnst með ýmsum hætti um allt land, en hápunktur hátíðarhaldanna var sérstakur hátíðarfundur á Laugum í Reykjadal 20. júní 1982. Á afmælisárinu var gert sérstakt afmælismerki SÍS með kjörorðinu “Máttur hinna mörgu” og skreytti það búðir og auglýsingar samvinnuhreyfingarinnar á afmælisárinu. KEA minntist tímamótanna með því að bjóða félagsmönnum og viðskiptavinum í kaffi þann 19. febrúar í matvöruverslunum félagsins á Akureyri og við Eyjafjörð og í Vöruhúsi KEA og þá voru sérstök afmælistilboð þann dag í öllum kjörbúðum KEA á reyktu svínafleski, bjúgum og London-lambi frá Kjötiðnaðarstöð KEA.

Hjalteyri

Rekstur lítillar matvöruverslunar KEA í Miklagarði á Hjalteyri hófst árið 1980, að ósk hreppsnefndarmanna í Arnarneshreppi, en þá hafði verið uppihald í verslunarrekstri á Hjalteyri undangengin þrjú ár. Á Hjalteyri rak KEA einnig fiskverkun, sem var hluti af rekstri frystihúss KEA á Dalvík.

Valur Arnþórsson

Þórarinn Valur Arnþórsson fæddist 1. mars 1935 á Eskifirði. Hann tók próf frá Samvinnuskólanum árið 1953 og var í trygginga- og viðskiptanámi í London um eins árs skeið og nam einnig um tíma við sænska samvinnuskólann í Saltsjöbaden. Valur starfaði um nokkurra ára skeið hjá Samvinnutryggingum, m.a. deildarstjóri endurtrygginga- og áhættudeilda félagsins. Fulltrúi kaupfélagsstjóra KEA var Valur á árunum 1965 til 1970 þegar hann tók að sér starf aðstoðarkaupfélagsstjóra í eitt ár. Kaupfélagsstjóri KEA varð Valur vorið 1971. Valur tók virkan þátt í bæjarmálum á Akureyri og sat í bæjarstjórn frá 1970. Forseti bæjarstjórnar Akureyrar var hann á árunum 1974 til 1978. Valur sat í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja og stofnana. Hann var kjörinn í stjórn Sambands íslenskra samvinnufélaga árið 1975 og formaður hennar frá 1978, þar til hann tók við starfi bankastjóra Landsbankans 1989. Af öðrum stjórnum sem Valur sat í má nefna stjórn Laxárvirkjunar, Landsvirkjunar, Orkuráð, Samvinnutrygginga, Olíufélagsins, Vinnumálasambands samvinnufélaganna, Samvinnuferða, Iðnþróunarfélag Eyjafjarðar, Kaffibrennslu Akureyrar, Útgerðarfélags KEA, Útgerðarfélags Dalvíkinga og Plasteinangrunar hf. Valur lét af starfi kaupfélagsstjóra KEA 31. janúar 1989 eftir hátt í aldarfjórðungs starf hjá félaginu er hann var ráðinn bankastjóri Landsbanka Íslands. Þann 13. október 1990 lést Valur Arnþórsson langt um aldur fram í flugslysi í Skerjafirði.

Fiskikassar úr plasti

Plasteinangrun hf. hóf árið 1981 að framleiða hvíta fiskikassa með einkaleyfi frá Pers Box í Noregi. Útgerðarfélag Akureyringa var eitt þeirra fyrirtækja sem notaði mikið af þessum fiskikössum. Þeir voru um borð í togurum ÚA frá 1981 til 1998, en þá tóku fiskikerin við.

Kotasæla

Mjólkursamlag KEA varð fyrst til að setja kotasælu á markaðinn árið 1980. Nafnið Kotasæla er gamalt heiti á sérstökum rétti sem gerður var úr ystri mjólk sem smjöri var bætt í og var samkvæmt orðabók Blöndals einkum þekktur í Kjósasýslu. Kotasælan er einkar góð í hvers konar brauðbakstur, grænmetissalöt og ábætisrétti með ferskum ávöxtum.