1986-1995

Þensla í þjóðfélaginu

Á árunum 1987 og 1988 var þensla í þjóðfélaginu. Næg atvinna var og mikill kaupmáttur launatekna. Að því kom þó að ský dró fyrir sólu og verulega þrengdi að í þjóðarbúskapnum. Margt kom þar til, t.d. töpuðust mikilvægir markaðir við hrun Sovétríkjanna og samdráttur varð í fiskveiðum vegna minnkandi þorskstofns. Langvarandi verðbólga og háir vextir áttu mikinn þátt í rekstrarerfiðleikum fyrirtækja og einstaklinga. Stjórnendur í atvinnulífinu stigu á bremsuna og höfðu aðhald að leiðarljósi á meðan fyrirtækjunum var komið í gegnum þennan öldusjó. Þetta efnahagsumhverfi setti mjög mark sitt á rekstur Kaupfélags Eyfirðinga á þessum árum. Óarðbærar einingar voru lagðar niður, ýmsar rekstrareiningar endurskipulagðar og allra leiða leitað til að hagræða í rekstrinum. Á fyrri hluta þessa tímabils fluttist öll starfsemi Efnaverksmiðjunnar Sjafnar í nýbyggingu fyrirtækisins við Austursíðu, til Hríseyjar kom nýtt og glæsilegt frystiskip, Snæfell EA 740 og ráðist var í stækkun og gagngerar endurbætur Hótels KEA. Árin frá 1990 til 1995 einkenndust hins vegar af aðhaldi og dregið var úr fjárfestingum eins og kostur var. Á aðalfundi KEA árið 1996, þar sem fjallað var um afkomu fyrra árs, var boðuð allsherjar stefnumótun hjá KEA þar sem allir rekstrarþættir félagsins væru til skoðunar og var ítrekað að ekkert í þáverandi fyrirkomulagi félagsins væri sjálfsagt eða óbreytanlegt.

Aldarafmæli KEA

Þann 19. júní 1986 voru hundrað ár liðin frá stofnun Kaupfélags Eyfirðinga, en þennan dag árið 1986 komu nokkrir menn saman til fundar á Grund í Eyjafirði og stofnuðu Pöntunarfélag Eyfirðinga, sem var forveri KEA. Aldarafmælis KEA var minnst með ýmsum hætti. Hátíðardagskrá var á afmælisdaginn við Mjólkursamlag KEA þar sem m.a. voru flutt ávörp og afhjúpað listaverkið “Auðhumla og mjaltastúlkan”, sem listamaðurinn Ragnar Kjartansson gerði. Hátíðargestum, sem voru um tvö þúsund, var boðið upp á kaffi og ýmsa mjólkurdrykki sem Mjólkursamlag KEA framleiddi, auk þess sem glæsilegar afmælistertur voru á borð bornar. Að kvöldi 19. og 20. júní 1986 bauð KEA síðan starfsfólki sínu og gestum til veislu í Íþróttahöllinni á Akureyri og munu í það heila um tvö þúsund manns hafa tekið þátt í henni. Að kvöldi 21. júní var síðan boðið upp á tónleika hljómsveitarinnar Rikshaw fyrir yngri kynslóðina.

Fyrsta Nettó-verslunin

Í ágúst 1989 opnaði KEA Nettó-verslun við Höfðahlíð 1 á Akureyri og var þetta fyrsta verslun sinnar tegundar utan höfuðborgarsvæðisins. Í KEA-fregnum í júlí 1989 er haft eftir Birni Baldurssyni, fulltrúa KEA á verslunarsviði, að erlendis séu þekktar verslanir sem gangi undir heitinu “Aldi”, “Bónus” og “Netto”. “Hér á Íslandi hafa þær einfaldlega verið nefndar “bónus búðir”. Við munum gefa okkar verslun ákveðið heiti, en hvort það verður dregið af útlendu nafni skal ég ekki segja til um á þessari stundu,” er haft eftir Birni, en niðurstaðan varð sú að verslunin var nefnd KEA-Nettó. Í hinni nýju verslun við Höfðahlíð var lögð áhersla á lægra matvöruverð, en á móti var fyrirkomulag verslunarinnar einfalt í sniðum og þjónusta í lágmarki, til þess að lækka kostnað. Frá opnun KEA-Nettó við Höfðahlíð árið 1989 hafa Nettó-verslanir haslað sér völl víða um land. Ein þeirra hefur síðustu árin verið í verslunarmiðstöðinni Glerártorgi á Akureyri.

Valur Arnþórsson

Þórarinn Valur Arnþórsson fæddist 1. mars 1935 á Eskifirði. Hann tók próf frá Samvinnuskólanum árið 1953 og var í trygginga- og viðskiptanámi í London um eins árs skeið og nam einnig um tíma við sænska samvinnuskólann í Saltsjöbaden. Valur starfaði um nokkurra ára skeið hjá Samvinnutryggingum, m.a. deildarstjóri endurtrygginga- og áhættudeilda félagsins. Fulltrúi kaupfélagsstjóra KEA var Valur á árunum 1965 til 1970 þegar hann tók að sér starf aðstoðarkaupfélagsstjóra í eitt ár. Kaupfélagsstjóri KEA varð Valur vorið 1971. Valur tók virkan þátt í bæjarmálum á Akureyri og sat í bæjarstjórn frá 1970. Forseti bæjarstjórnar Akureyrar var hann á árunum 1974 til 1978. Valur sat í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja og stofnana. Hann var kjörinn í stjórn Sambands íslenskra samvinnufélaga árið 1975 og formaður hennar frá 1978, þar til hann tók við starfi bankastjóra Landsbankans 1989. Af öðrum stjórnum sem Valur sat í má nefna stjórn Laxárvirkjunar, Landsvirkjunar, Orkuráðs, Samvinnutrygginga, Olíufélagsins, Vinnumálasambands samvinnufélaganna, Samvinnuferða, Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar, Kaffibrennslu Akureyrar, Útgerðarfélags KEA, Útgerðarfélags Dalvíkinga og Plasteinangrunar hf. Valur lét af starfi kaupfélagsstjóra KEA 31. janúar 1989 eftir hátt í aldarfjórðungs starf hjá félaginu er hann var ráðinn bankastjóri Landsbanka Íslands. Þann 13. október 1990 lést Valur Arnþórsson langt um aldur fram í flugslysi í Skerjafirði.

Magnús Gauti Gautason

Magnús Gauti Gautason hóf störf hjá Kaupfélagi Eyfirðinga árið 1974 og vann að rekstraráætlunum og hagkvæmniathugunum á hagdeild félagsins. Árið 1978 varð hann fulltrúi kaupfélagsstjóra á sviði skipulags- og hagmála og sá að auki um matvöruverslanir félagsins á árunum 1984-1987, fjármálastjóri félagsins var hann á árunum 1987-1989 og aðstoðarkaupfélagsstjóri frá 1. september 1988 til 1. febrúar 1989 þegar hann tók við starfi kaupfélagsstjóra KEA. Magnús Gauti er Akureyringur, fæddur 8. ágúst 1950. Hann er menntaður rekstrarhagfræðingur frá Uppsalaháskóla árið 1974 og hóf síðan MBA-nám við Herriot-watt University í Edinborg árið 1998. Magnús Gauti lét af starfi kaupfélagsstjóra KEA vorið 1998 og tók þá við starfi framkvæmdastjóra sjávarútvegsfyrirtækisins Snæfells. Því starfi gegndi hann til ársins 2000 þegar hann tók að sér framkvæmdastjórn VSÓ Ráðgjafar á Akureyri/Rekstrarráðgjafar Norðurlands. Magnús Gauti sat í stjórnum fjölmargra dótturfélaga KEA og var stjórnarformaður flestra félaganna. Hann hefur setið í stjórnum fjölmargra annarra félaga. Nefna má Kaupþing Norðurlands, Iðnþróunarfélag Eyjafjarðar, Þróunarfélag Íslands, Líftryggingafélagið Andvöku, VÍS, Samskip, Olíufélag Íslands, Íslenskar sjávarafurðir, Gelmer í Frakklandi og SÍF.

Flúx hreinlætisvörur

Á níunda áratugnum setti Sjöfn á markað Flúx-línuna í hreinlætisvörum, sem m.a. samanstóð af gólfsápu, bóni og bónleysi.

Útitex málning

Ein af þekktari málningartegundum síðari ára frá Sjöfn er Útitex, sem eins og nafnið gefur til kynna var sérstaklega hönnuð til utanhússmálningar. Útitexið er vatnsþynnt akrylmálning.