Þensla í þjóðfélaginu
Á árunum 1987 og 1988 var þensla í þjóðfélaginu. Næg atvinna var og mikill kaupmáttur launatekna. Að því kom þó að ský dró fyrir sólu og verulega þrengdi að í þjóðarbúskapnum. Margt kom þar til, t.d. töpuðust mikilvægir markaðir við hrun Sovétríkjanna og samdráttur varð í fiskveiðum vegna minnkandi þorskstofns. Langvarandi verðbólga og háir vextir áttu mikinn þátt í rekstrarerfiðleikum fyrirtækja og einstaklinga. Stjórnendur í atvinnulífinu stigu á bremsuna og höfðu aðhald að leiðarljósi á meðan fyrirtækjunum var komið í gegnum þennan öldusjó. Þetta efnahagsumhverfi setti mjög mark sitt á rekstur Kaupfélags Eyfirðinga á þessum árum. Óarðbærar einingar voru lagðar niður, ýmsar rekstrareiningar endurskipulagðar og allra leiða leitað til að hagræða í rekstrinum. Á fyrri hluta þessa tímabils fluttist öll starfsemi Efnaverksmiðjunnar Sjafnar í nýbyggingu fyrirtækisins við Austursíðu, til Hríseyjar kom nýtt og glæsilegt frystiskip, Snæfell EA 740 og ráðist var í stækkun og gagngerar endurbætur Hótels KEA. Árin frá 1990 til 1995 einkenndust hins vegar af aðhaldi og dregið var úr fjárfestingum eins og kostur var. Á aðalfundi KEA árið 1996, þar sem fjallað var um afkomu fyrra árs, var boðuð allsherjar stefnumótun hjá KEA þar sem allir rekstrarþættir félagsins væru til skoðunar og var ítrekað að ekkert í þáverandi fyrirkomulagi félagsins væri sjálfsagt eða óbreytanlegt.