1996-2005

Fyrirtækjavæðing KEA

Árin 1995 til 2000 reyndust Kaupfélagi Eyfirðinga rekstrarlega þung. Erfiðlega gekk í sjávarútveginum, sem KEA hafði bundið mikla fjármuni í, og miklar breytingar urðu í verslunarháttum og þjónustu. Háir raunvextir í landinu gerðu atvinnulífinu lífið leitt. Mikil skuldsetning gerði KEA erfitt fyrir. Í ársskýrslu fyrir árið 1997 segja kaupfélagsstjóri og stjórnarformaður að breyttir tímar, t.d. breytt rekstrarumhverfi afurðastöðva í landbúnaði, kalli mögulega á breytt skipulag KEA. Meðal annars þurfi menn að spyrja sig hvort beri að skipta félaginu upp eða breyta því í hlutafélag. Þetta var upphaf af miklum breytingum á Kaupfélagi Eyfirðinga, sem unnið var að næstu árin. Á árinu 1998 má segja að fyrirtækjavæðing KEA hafi hafist, sem hafði það að markmiði að færa rekstur félagsins í hlutafélög. Á árinu 2001 var stofnað fjárfestingafélagið Kaldbakur um eignir og skuldbindingar KEA. Jafnframt var samvinnufélaginu KEA mörkuð sú stefna að vinna að hagsmunum félagsmanna sinna og efla búsetu á félagssvæðinu, með því meðal annars að ávaxta fjármuni félagsins og ráðstafa hæfilegum arði af þeim til félagsmanna jafnframt því að leita hagstæðra viðskiptakjara fyrir þá. Á árinu 2004 var fjárfestingafélagið Kaldbakur selt og það sameinað Burðarási. Við þessa sölu losaði KEA fjármuni til nýrra framtíðarverkefna á félagssvæðinu. Skuldlaust samvinnufélag með mikinn fjárhagslegan styrk, sem hafði ekki lengur með höndum fjölþættan atvinnurekstur.

Uppstokkun afurðastöðva

Sem liður í fyrirtækjavæðingu Kaupfélags Eyfirðinga, sem hófst árið 1998, var uppstokkun í rekstri afurðastöðva félagsins. Kjötiðnaðarstöð KEA og Kjötiðja KÞ á Húsavík sameinuðust 1. júlí árið 2000 og til varð Norðlenska ehf.. Þann 1. janúar 2001 var Nýja Bautabúrið síðan sameinað Norðlenska og það sama ár keypti Norðlenska þrjár kjötvinnslur Goða hf. Í hönd fóru erfið uppbyggingarár þar sem oft hefur gefið hressilega á bátinn, en lagður var grunnur að einni allra öflugustu kjötvinnuslustöð landsins. KEA átti um áramótin 2005-2006 um 45% hlutafjár í Norðlenska, en Búsæld-framleiðendafélag var næststærsti hluthafinn með um 40% hlutafjár. Mjólkursamlagi KEA á Akureyri var breytt í hlutafélagið MSKEA.ehf, sem formlega tók yfir rekstur samlagsins 1. janúar 2000. Á fyrri hluta árs 1999 keypti Kaupfélag Eyfirðinga Mjólkursamlag KÞ á Húsavík og var rekstur þess færður í hlutafélagið MSKÞ.ehf. Mjólkursamlag KEA, sem hafði verið stofnað árið 1927, heyrði endanlega sögunni til 1. september árið 2000 þegar Norðurmjólk varð til við samruna mjólkursamlaganna á Akureyri og Húsavík og Grana – einkahlutafélags í eigu bænda á samlagssvæði Norðurmjólkur. Til að byrja með var Norðurmjólk með vinnslustöðvar bæði á Akureyri og Húsavík, en árið 2002 lagðist mjólkurvinnsla af á Húsavík og öll vinnsla á mjólk á starfssvæði Norðurmjólkur færðist undir eitt þak á Akureyri.

Könnun á viðhorfi fólks til breytinga á KEA

Í ársbyrjun 2005 var gerð könnun á viðhorfi fólks til skipulagsbreytinga á Kaupfélagi Eyfirðinga undangengin ár. Í úrtaki könnunarinnar voru 1227 manns á aldrinum 18-80 ára í Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu – þar af voru 299 félagsmenn í KEA. Mikill meirihluti þátttakenda taldi að breytingarnar á KEA hafi verið jákvæðar, en um fjórðungur taldi þær hafa verið neikvæðar. Athyglisvert er að í sambærilegri viðhorfskönnun sem gerð var árið 2006 var viðhorf fólks til KEA á félagssvæðinu enn jákvæðara, sem kann að vera til marks um að æ fleiri hafi skilning á þeim breytingum sem KEA hefur gengið í gegnum á undanliðnum árum og einnig hafði tilkoma KEA-kortsins, sem var gefið út í febrúar 2006, sitt að segja.

Magnús Gauti Gautason

Magnús Gauti Gautason hóf störf hjá Kaupfélagi Eyfirðinga árið 1974 og vann að rekstraráætlunum og hagkvæmniathugunum á hagdeild félagsins. Árið 1978 varð hann fulltrúi kaupfélagsstjóra á sviði skipulags- og hagmála og sá að auki um matvöruverslanir félagsins á árunum 1984-1987, fjármálastjóri félagsins var hann á árunum 1987-1989 og aðstoðarkaupfélagsstjóri frá 1. september 1988 til 1. febrúar 1989 þegar hann tók við starfi kaupfélagsstjóra KEA. Magnús Gauti er Akureyringur, fæddur 8. ágúst 1950. Hann er menntaður rekstrarhagfræðingur frá Uppsalaháskóla árið 1974 og hóf síðan MBA-nám við Herriot-watt University í Edinborg árið 1998. Magnús Gauti lét af starfi kaupfélagsstjóra KEA vorið 1998 og tók þá við starfi framkvæmdastjóra sjávarútvegsfyrirtækisins Snæfells. Því starfi gegndi hann til ársins 2000 þegar hann tók að sér framkvæmdastjórn VSÓ Ráðgjafar á Akureyri/Rekstrarráðgjafar Norðurlands. Magnús Gauti sat í stjórnum fjölmargra dótturfélaga KEA og var stjórnarformaður flestra félaganna. Hann hefur setið í stjórnum fjölmargra annarra félaga. Nefna má Kaupþing Norðurlands, Iðnþróunarfélag Eyjafjarðar, Þróunarfélag Íslands, Líftryggingafélagið Andvöku, VÍS, Samskip, Olíufélag Íslands, Íslenskar sjávarafurðir, Gelmer í Frakklandi og SÍF.

Eiríkur S. Jóhannsson

Eiríkur S. Jóhannsson var ráðinn í starf kaupfélagsstjóra KEA vorið 1998. Í hönd fór mikill umbreytingartími hjá félaginu, sem fyrst og fremst fólst í því að endurskilgreina áherslur í rekstri félagsins auk þess að færa rekstur KEA yfir í hlutafélög og greiða út stofnsjóðseign félagsmanna. Í þessu skyni voru allar eignir og skuldir kaupfélagsins færðar yfir í fjárfestingafélagið Kaldbak hf., sem félagið stofnaði til, um leið og samvinnufélaginu KEA var markað nýtt hlutverk. Kaldbakur hf. var seinna skráður í Kauphöll Íslands og var þá stofnsjóðsaðilum í KEA greiddur út stofnsjóður þeirra með hlutabréfum í Kaldbaki. Kaldbakur hf. styrktist til muna með tilkomu nýrra fjárfesta að félaginu og naut velgengni í starfsemi, varð Kaldbakur hf. t.a.m. um tíma eitt stærsta fjárfestingarfélag landsins. Um nokkurt skeið var Eiríkur framkvæmdastjóri Kaldbaks og jafnframt kaupfélagsstjóri KEA, en Eiríkur lét af starfi kaupfélagsstjóra þann 19. júní 2002, en var áfram framkvæmdastjóri Kaldbaks þar til félagið var sameinað Burðarási hf. seinni hluta árs 2004. Seinna varð hann forstjóri Og Vodafone og leiddi félagið í gegnum þær breytingar sem urðu á félaginu með kaupum félagsins á 365-fjölmiðlum og skipulagsbreytinga samstæðunnar með tilkomu Dagsbrúnar hf. á árinu 2005. Í ársbyrjun 2006 hóf Eiríkur störf sem forstöðumaður Norrænna fjárfestinga hjá Baugi Group hf. Eiríkur er Akureyringur, fæddur 8. febrúar 1968. Hann er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og lagði seinna stund á framhaldsnám í alþjóðahagfræði og fjármálum við Vanderbilt University í Bandaríkjunum. Áður en Eiríkur tók við starfi kaupfélagsstjóra KEA var hann útibússtjóri Landsbanka Íslands hf. á Akureyri og svæðisstjóri bankans á Norðurlandi.

Andri Teitsson

Andri Teitsson tók við starfi framkvæmdastjóra KEA á vordögum 2003. Andri er Akureyringur, fæddur 24. desember 1966. Hann er vélaverkfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1990 og stundaði síðan framhaldsnám í iðnaðar- og rekstrarverkfræði við Stanford háskóla í Bandaríkjunum. Áður en Andri kom til starfa hjá KEA sat hann í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, m.a. Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna hf., Opinna kerfa hf., Skýrr hf., Marels hf., Vaka-DNG hf., Hæfis hf., Hans Petersen hf. og Aco Tæknivals hf. Andri lét af starfi framkvæmdastjóra KEA árið 2005.

Halldór Jóhannsson

Halldór Jóhannsson var ráðinn framkvæmdastjóri KEA í september 2005, en frá nóvember 2004 hafði hann starfað sem fjárfestingastjóri félagsins. Halldór er Akureyringur, fæddur 4. ágúst 1972. Hann er viðskiptafræðingur að mennt. Hann var aðstoðarframkvæmdastjóri fjárfestingafélagsins Kaldbaks á árunum 2002-2004 og hafði áður verið um hríð aðstoðarkaupfélagsstjóri KEA. Áður en Halldór kom til starfa hjá KEA starfaði hann um fimm ára skeið við fjármögnun, fjárfestingar og samrunaráðgjöf hjá Landsbanka Íslands.