Fyrirtækjavæðing KEA
Árin 1995 til 2000 reyndust Kaupfélagi Eyfirðinga rekstrarlega þung. Erfiðlega gekk í sjávarútveginum, sem KEA hafði bundið mikla fjármuni í, og miklar breytingar urðu í verslunarháttum og þjónustu. Háir raunvextir í landinu gerðu atvinnulífinu lífið leitt. Mikil skuldsetning gerði KEA erfitt fyrir. Í ársskýrslu fyrir árið 1997 segja kaupfélagsstjóri og stjórnarformaður að breyttir tímar, t.d. breytt rekstrarumhverfi afurðastöðva í landbúnaði, kalli mögulega á breytt skipulag KEA. Meðal annars þurfi menn að spyrja sig hvort beri að skipta félaginu upp eða breyta því í hlutafélag. Þetta var upphaf af miklum breytingum á Kaupfélagi Eyfirðinga, sem unnið var að næstu árin. Á árinu 1998 má segja að fyrirtækjavæðing KEA hafi hafist, sem hafði það að markmiði að færa rekstur félagsins í hlutafélög. Á árinu 2001 var stofnað fjárfestingafélagið Kaldbakur um eignir og skuldbindingar KEA. Jafnframt var samvinnufélaginu KEA mörkuð sú stefna að vinna að hagsmunum félagsmanna sinna og efla búsetu á félagssvæðinu, með því meðal annars að ávaxta fjármuni félagsins og ráðstafa hæfilegum arði af þeim til félagsmanna jafnframt því að leita hagstæðra viðskiptakjara fyrir þá. Á árinu 2004 var fjárfestingafélagið Kaldbakur selt og það sameinað Burðarási. Við þessa sölu losaði KEA fjármuni til nýrra framtíðarverkefna á félagssvæðinu. Skuldlaust samvinnufélag með mikinn fjárhagslegan styrk, sem hafði ekki lengur með höndum fjölþættan atvinnurekstur.