2006-2015

Hundrað og tuttugu ára

Á hundrað og tuttugu ára afmælisári hefur nafni Kaupfélags Eyfirðinga verið breytt í KEA. Nafnabreytingin undirstrikar meðal annars breytt hlutverk félagsins frá því sem áður var. KEA er nú fjárfestingafélag sem vinnur í þágu eigenda sinna að eflingu atvinnulífs og búsetuskilyrða á starfssvæðinu. Félagið á tvö dótturfélög, annað þeirra er fjárfestingafélag um hefðbundnar fjárfestingar og hitt er fjárfestingafélag um nýsköpunar- og framtaksverkefni. KEA kemur að ýmsum verkefnum á sviði til dæmis heilbrigðis-, mennta- og samgöngumála á starfssvæðinu, auk þess að leggja umtalsverða fjármuni til ýmissa samfélagslegra verkefna, m.a. með fjölmörgum styrkjum til einstaklinga og félagasamtaka úr Menningar- og viðurkenningasjóði KEA. Á árinu 2005 hófst átak til fjölgunar félagsmanna KEA, en þeim hafði fækkað jafnt og þétt undanfarin ár, og skilaði það nokkur þúsund nýjum félagsmönnum, sem eru nú á tólfta þúsund í fimm félagsdeildum. Á árinu 2006 gaf KEA út KEA-kortið, sem er afsláttar- og fríðindakort fyrir félagsmenn og veitir þeim afslátt af vöru og þjónustu hjá fyrirtækjum með fjölþætta starfsemi á starfssvæðinu. Efnahagur KEA á afmælisári er sterkur. Eigið fé félagsins er á fimmta milljarð króna og heildareignir losa fimm milljarða. Fjárfestingarstefna félagsins hefur það að megin markmiði að varðveita höfuðstól félagsins að raungildi til lengri tíma og eiginfjárhlutfall fari ekki undir fimmtíu prósent.

Gjöf til FSA á 120 ára afmæli KEA

Á 120 ára afmælisdegi KEA, 19. júní 2006, færði félagið Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri veglega gjöf, sem er færanlegt ómskoðunartæki að verðmæti 5 milljónir króna. Frú Dorrit Moussaieff, forsetafrú, afhendi stjórnendum Fjórðungssjúkrahússins tækið fyrir hönd KEA. Hið nýja færanlega ómskoðunartæki sem KEA færði FSA að gjöf er af gerðinni Micromaxx og auðveldar ástungur á æðum og við deyfingar. Tækið nýtist einnig vel við skoðun á hjarta og öðrum innri líffærum, jafnt hjá gjörgæslusjúklingum sem í aðgerðum. Tækið er handhægt og meðfærilegt og því nýtist það sérstaklega vel á slysadeild FSA og í sjúkraflug.

Nýtt firmamerki KEA

Frá 1930 var hinn þekkti tígull firmamerki KEA, en það merki hannaði Sveinbjörn Jónsson. KEA-tígullinn var eflaust eitt þekktasta firmamerki landsins, enda var hann víða sýnilegur við Eyjafjörð þegar umsvif Kaupfélags Eyfirðinga í atvinnurekstri voru hvað mest hér á árum áður. Þann 10. febrúar 2006 var kynnt nýtt firmamerki KEA sem var hannað hjá Ásprenti Stíl ehf. á Akureyri, sem á vissan hátt hefur skírskotun til gamla tígulsins, en er í raun gulur ferningur séður frá hlið. Jafnframt var síðasti KEA-tígullinn tekinn niður af KEA-húsinu við Hafnarstræti, en í júlí 2006 fluttust skrifstofur KEA úr því húsi í eigið húsnæði að Glerárgötu 36.

Halldór Jóhannsson

Halldór Jóhannsson var ráðinn framkvæmdastjóri KEA í september 2005, en frá nóvember 2004 hafði hann starfað sem fjárfestingastjóri félagsins. Halldór er Akureyringur, fæddur 4. ágúst 1972. Hann er viðskiptafræðingur að mennt. Hann var aðstoðarframkvæmdastjóri fjárfestingafélagsins Kaldbaks á árunum 2002-2004 og hafði áður verið um hríð aðstoðarkaupfélagsstjóri KEA. Áður en Halldór kom til starfa hjá KEA starfaði hann um fimm ára skeið við fjármögnun, fjárfestingar og samrunaráðgjöf hjá Landsbanka Íslands.