Hundrað og tuttugu ára
Á hundrað og tuttugu ára afmælisári hefur nafni Kaupfélags Eyfirðinga verið breytt í KEA. Nafnabreytingin undirstrikar meðal annars breytt hlutverk félagsins frá því sem áður var. KEA er nú fjárfestingafélag sem vinnur í þágu eigenda sinna að eflingu atvinnulífs og búsetuskilyrða á starfssvæðinu. Félagið á tvö dótturfélög, annað þeirra er fjárfestingafélag um hefðbundnar fjárfestingar og hitt er fjárfestingafélag um nýsköpunar- og framtaksverkefni. KEA kemur að ýmsum verkefnum á sviði til dæmis heilbrigðis-, mennta- og samgöngumála á starfssvæðinu, auk þess að leggja umtalsverða fjármuni til ýmissa samfélagslegra verkefna, m.a. með fjölmörgum styrkjum til einstaklinga og félagasamtaka úr Menningar- og viðurkenningasjóði KEA. Á árinu 2005 hófst átak til fjölgunar félagsmanna KEA, en þeim hafði fækkað jafnt og þétt undanfarin ár, og skilaði það nokkur þúsund nýjum félagsmönnum, sem eru nú á tólfta þúsund í fimm félagsdeildum. Á árinu 2006 gaf KEA út KEA-kortið, sem er afsláttar- og fríðindakort fyrir félagsmenn og veitir þeim afslátt af vöru og þjónustu hjá fyrirtækjum með fjölþætta starfsemi á starfssvæðinu. Efnahagur KEA á afmælisári er sterkur. Eigið fé félagsins er á fimmta milljarð króna og heildareignir losa fimm milljarða. Fjárfestingarstefna félagsins hefur það að megin markmiði að varðveita höfuðstól félagsins að raungildi til lengri tíma og eiginfjárhlutfall fari ekki undir fimmtíu prósent.