Saga Kaupfélags Eyfirðinga í máli og myndum
1886

Kaupfélag Eyfirðinga stofnað 19. júní

Nítjánda öldin var öld þjóðernisvakningar og á margan hátt framfara á Íslandi. En mótvindurinn var líka mikill og erfiður.

Lesa meira
1896

Pöntunarfélag Eyfirðinga

Frá 1894 til 1906 var félagið jafnan nefnt Pöntunarfélag Eyfirðinga en ekki Kaupfélag Eyfirðinga, en kaupfélagsnafnið festist síðan við það frá 1906.

Lesa meira
1906

Ný sókn Kaupfélags Eyfirðinga

Ný sókn Kaupfélags Eyfirðinga hófst árið 1906. Að erlendri fyrirmynd var á aðalfundi það ár lagður grunnur að því starfi sem KEA byggði á upp frá því. Samþykkt var að KEA hefði það meðal annars að markmiði að útvega félagsmönnum góðar og ósviknar vörur á hagkvæmu verði, að efla vöruvöndun og koma innlendum vörum í sem hæst verð og stuðla að útbreiðslu og eflingu samvinnufélaga í landinu.

Lesa meira
1916

Heimsstyrjöldin fyrri

Heimsstyrjöldin fyrri, sem stóð frá 1914 til 1918, snerti Kaupfélag Eyfirðinga eins og aðra starfsemi í landinu. Útflutningsvörur voru á góðu verði og vöruvelta félagsins margfaldaðist því á þessum árum. Hins vegar var vöruskortur fylgifiskur stríðsins og af þeim sökum hægði á framkvæmdum og þar með uppbyggingu félagsins

Lesa meira
1926

Frystihús KEA á Oddeyrartanga

Undir lok þriðja áratugarins voru stoðir frumvinnslugreinanna, landbúnaðar og sjávarútvegs, styrktar til muna með tilkomu frystihúss KEA á Oddeyrartanga og mjólkursamlags, sem tók til starfa í gamla sláturhúsinu í Grófargili árið 1928. Jafnframt færðist starfsemi sláturhússins í nýtt sláturhús, sem var byggt áfast frystihúsinu á Oddeyrartanga.

Lesa meira
1936

Fimmtíu ára afmæli KEA

Þegar hér var komið sögu hafði Kaupfélag Eyfirðinga fest sig í sessi með starfsemi í öllum byggðum Eyjafjarðar, auk félagsdeilda í uppsveitum Suður-Þingeyjarsýslu og Akrahreppi í Skagafirði. Á fimmtíu ára afmæli KEA árið 1936 voru félagsdeildirnar tuttugu og þrjár og félagsmenn rösklega 2.400, fjórðungur þeirra var á Akureyri.

Lesa meira
1946

Í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar

Í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar voru mörg Evrópuríki í miklum sárum og bjuggu við vöruskort og mikið atvinnuleysi. Þannig var málum ekki háttað hér á landi. Þvert á móti var atvinnulífið nokkuð blómlegt strax eftir stríð og kjör þjóðarinnar bærilega góð, ekki síst vegna framlaga úr svokallaðri Marshallaðstoð.

Lesa meira
1956

Óróleiki í efnahagsmálum

Síðustu ár sjötta áratugarins og fyrri hluti sjöunda áratugarins einkenndist af miklum óróleika í efnahagsmálum þjóðarinnar. Verðbólga og dýrtíð samfara óróleika á vinnumarkaði hafði slæm áhrif á vöxt og viðgang atvinnulífsins og þar með hag heimilanna. Í skýrslu sinni til aðalfundar KEA árið 1961 sagðist Jakob Frímannsson, þáverandi kaupfélagsstjóri, vænta þess að leiðtogar þjóðarinnar í framleiðslu og fjárhagsmálum mættu bera gæfu til að byggja upp fjárhagskerfi, sem gæti orðið til frambúðar.

Lesa meira
1966

Dýrtíðin

Áfram hélt dýrtíðin og KEA sá fram á að enn um hríð myndi þrengja að iðnaðarframleiðslu félagsins. Höft á lánsfjármagni voru farin að sverfa að og tíðar gengisfellingar bættu ekki úr skák. Stjórnarformaður og kaupfélagsstjóri höfðu á orði á aðalfundi félagsins árið 1968 að þar sem ríkisstjórnin hefði samvinnumenn aldrei með í ráðum væri engin önnur úrræði önnur en að taka því sem að höndum bæri.

Lesa meira
1976

KEA fjórða stærsta fyrirtæki landsins

Árið 1978 var KEA fjórða stærsta fyrirtæki landsins samkvæmt úttekt tímaritsins Frjálsrar verslunar, þar sem ársstörf félagsins voru skráð rösklega eitt þúsund. Félagsmenn voru þá um sjö þúsund. Félagið var enn í vexti og staða þess var gríðarlega sterk á félagssvæðinu. Árið 1976 var stofnuð ný félagsdeild KEA á Siglufirði, en fjórum árum áður hafði félagið tekið við rekstri verslunar sem Kaupfélag Siglufjarðar hafði haft með höndum.

Lesa meira
1986

Þensla í þjóðfélaginu

Á árunum 1987 og 1988 var þensla í þjóðfélaginu. Næg atvinna var og mikill kaupmáttur launatekna. Að því kom þó að ský dró fyrir sólu og verulega þrengdi að í þjóðarbúskapnum. Margt kom þar til, t.d. töpuðust mikilvægir markaðir við hrun Sovétríkjanna og samdráttur varð í fiskveiðum vegna minnkandi þorskstofns.

Lesa meira
1996

Fyrirtækjavæðing KEA

Árin 1995 til 2000 reyndust Kaupfélagi Eyfirðinga rekstrarlega þung. Erfiðlega gekk í sjávarútveginum, sem KEA hafði bundið mikla fjármuni í, og miklar breytingar urðu í verslunarháttum og þjónustu. Háir raunvextir í landinu gerðu atvinnulífinu lífið leitt. Mikil skuldsetning gerði KEA erfitt fyrir. Í ársskýrslu fyrir árið 1997 segja kaupfélagsstjóri og stjórnarformaður að breyttir tímar, t.d. breytt rekstrarumhverfi afurðastöðva í landbúnaði, kalli mögulega á breytt skipulag KEA.

Lesa meira
2006

Hundrað og tuttugu ára

Á hundrað og tuttugu ára afmælisári hefur nafni Kaupfélags Eyfirðinga verið breytt í KEA. Nafnabreytingin undirstrikar meðal annars breytt hlutverk félagsins frá því sem áður var. KEA er nú fjárfestingafélag sem vinnur í þágu eigenda sinna að eflingu atvinnulífs og búsetuskilyrða á starfssvæðinu. Félagið á tvö dótturfélög, annað þeirra er fjárfestingafélag um hefðbundnar fjárfestingar og hitt er fjárfestingafélag um nýsköpunar- og framtaksverkefni. KEA kemur að ýmsum verkefnum á sviði til dæmis heilbrigðis-, mennta- og samgöngumála á starfssvæðinu, auk þess að leggja umtalsverða fjármuni til ýmissa samfélagslegra verkefna, m.a. með fjölmörgum styrkjum til einstaklinga og félagasamtaka úr Menningar- og viðurkenningasjóði KEA.

Lesa meira